Ertu með ábendingu um „bílhræ“ á einkalóð á Akranesi?

Eins og áður hefur komið fram á skagafrettir.is féll nýverið úrskurður í kærumáli þar sem að númerslaus ryðgaður bíll í slæmu ástandi var fjarlægður af einkalóð. Í þessum úrskurði kemur skýrt fram fram að heilbrigðiseftirlitið hefur heimild til að fjarlægja númerslausa bíla af einkalóðum.

Í fyrirspurn Skagafrétta sem send var á Akraneskaupstað er íbúum hér á Akranesi bent á að senda ábendingar um slík tilvik á einkalóðum. Það er einfalt og er gert með því að senda tölvupóst á [email protected].

Í þessum tölvupósti á að koma fram hvar viðkomandi bifreið er staðsett, götuheiti, húsnúmer og ljósmynd af bílnum myndi ekki skemma fyrir. Öllum ábendingum verður síðan komið áleiðis til Heilbrigðiseftirlits Vesturlands ef ástæða er til.

Í úrskurði úskurðarnefndar umhverfis- og auðlindanefndar sem kveðinn var upp þann 3. október sl. kemur skýrt fram að heilbrigðiseftirlitið hefur heimild til þess að fjarlægja númerslausa bíla á einkalóðum, á þeirri forsendu einni að um væri að ræða lýti á umhverfinu.

Úrskurðað var í kærumáli á hendur Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja sem fjarlægði, númerslausan ryðgaðan bíl í slæmu ástandi, á einkalóð. Hingað til hefur heilbrigðiseftirlitið litið svo á að ríkari forsendur þyrfti til þess að fjarlægja númerslausa bíla af einkalóðum s.s. að olía væri að leka af bílum eða þá að rúður og ljós væru brotin þannig að slysahætta stafaði af bílflökum.

Það er ljóst að úrskurðurinn auðveldar mjög tiltekt á einkalóðum – sem er fagnaðarefni.