Guðbjörg hlaut Menningarverðlaun Akraness 2017

Guðbjörg Árnadóttir hlaut Menningarverðlaun Akraness 2017 fyrir framúrskarandi framlag til menningarmála á Akranesi. Verðlaunin voru afhend í gær við setningu menningarhátíðarinnar Vökudaga af Ingþóri Bergmann Þórhallssyni, formanni menningar- og safnanefndar.

Guðbjörg Árnadóttir hefur um áratuga skeið unnið ötullt og óeigingjarnt starf fyrir Skagaleikflokkinn, nú Leikfélagið Skagaleikflokkinn og komið að fjölmörgum leiklistartengdum viðburðum á Akranesi. Guðbjörg varð formaður Skagaleikflokksins árið 1981 og gegndi því embætti til ársins 1984. Hún var aftur formaður frá árinu 1995 til ársins 2001. Frá þeim tíma hefur hún verið, að öðrum ólöstuðum, sá aðili sem hefur haldið starfi leikflokksins gangandi. Guðbjörg var formaður stjórnar Bandalags íslenskra leikfélaga árin 1987-1993.

Guðbjörg Árnadóttir hefur um áratuga skeið unnið ötullt og óeigingjarnt starf fyrir Skagaleikflokkinn

Guðbjörg hefur tekið þátt í fjölmörgum leiksýningum Skagaleikflokksins, ýmist sem leikari, leiksjóri, framkvæmdastjóri, hvíslari, miðasöludama, kaffikerling og svo mætti lengi áfram telja. Hún hefur einnig kennt leiklist til fjölda ára við Brekkubæjarskóla og staðið fyrir leiklistarnámskeiðum á Akranesi. Þá hefur hún á undanförnum árum verið forsprakki í sögugöngum sem hafa verið framkvæmdar með mismunandi áherslum frá ári til árs í samstarfi við Bókasafnið á Akranesi.

Guðbjörg hefur jafnframt verið ötul í starfi blakfélagsins Bresa og iðkar blakíþróttina enn þann dag í dag. Árlega er haldið svo kallað Boggu-Bresa mót henni til heiðurs. Guðbjörg er vel að Menningarverðlaununum komin og vonandi eiga Skagamenn eftir að fá að njóta óþrjótandi krafta hennar, hugmyndaauðgi og elju um ókomna framtíð.