Hallur verður með í uppbyggingunni – samdi á ný við ÍA

Hallur Flosason hefur framlengt samning sinn við Knattspyrnufélag ÍA um 2 ár og gildir samningur út leiktíðina 2019. Hallur er 24 ára uppalinn hjá ÍA og hefur verið einn af lykilmönnum Skagamanna. Í tilkynningu frá ÍA segir að Hallur sé mikilvægur fyrir framtíðina á Skaganum en hann hefur spilað 65 leiki með meistaraflokki og skorað 3 mörk.

„Ég er mjög ánægður með að hafa framlengt samninginn og fá tækifæri til að vinna áfram með þessum strákum sem eru í liðinu. Svo verður auðvitað spennandi að fá að vinna með Jóa Kalla og Sigga Jóns, mér lýst mjög vel á þá. Það er heiður að fá að vera partur af þessari uppbyggingu sem er í gangi á Skaganum og allir í liðinu erum ákveðnir í því að taka liðið upp á næsta level,” sagði Hallur.

Jóhannes Karl þjálfari liðsins er ánægður með þessa framlengingu. „Þetta eru frábærar fréttir fyrir félagið, Hallur er hæfileikaleikaríkur fótboltamaður og sterkur varnarmaður sem hefur mikla reynslu og er því mikilvægur fyrir liðið okkar og framtíðarplön,“ segir Jóhannes Karl.