Þessi pistill verður ekki jafnlangur og Reykjavíkurbréf í Mogganum. Ég vann reyndar á Mogganum í áratug og las aldrei Reykjavíkurbréfið. Ég sá bara að það var alltaf mjög langt, með rosalega marga bókstafi og engar myndir. Ég ætla samt að hvetja þig að halda áfram að lesa – ég er búinn að eyða mjög miklum tíma í að hugsa og skrifa þetta.
Ástæðan fyrir því að þessi pistill er skrifaður er heldur ekki fall karlaliðs ÍA í fótbolta úr Pepsi-deildinni. Jú aðeins en samt ekki.
Það sem hvatti mig í að skrifar þessar línur er sú staðreynd að líklega hafa aldrei fleiri börn – og unglingar á Akranesi æft íþróttir. Og að langflestir æfa eina íþrótt frá unga aldri. Aðeins örfáir fá tækifæri til þess að æfa margar íþróttagreinar á sama tíma eftir að þau hefja grunnskólanám.
Mér finnst það miður og ég hef líka á tilfinningunni að okkar besta íþróttafólk fari á mis við það sem ég fékk m.a. að upplifa sem barn – og unglingur. Ég er einnig á þeirri skoðun að börn – og unglingar í dag búi ekki yfir sömu hreyfifærni og var til staðar áður. Ekki vísindalega sannað en ef leikmaður í efstu flokkum ÍA getur varla hlaupið afturábak á góðum hraða þá blikka rauðu ljósin.
Ég hef að undanförnu rýnt í þá veröld sem börnin mín sem eru á aldrinum 15-23 ára hafa upplifað hér á Akranesi og miðað það við þá veröld sem ég fékk að upplifa. Á mínum yngri árum var eitt íþróttahús við Vesturgötuna, Langisandur, malarvöllurinn við Jaðarsbakka og Bjarnalaug. Aðstæður voru mun frumstæðari en við þekkjum í dag, Jaðarsbakkalaugin, íþróttahúsið við Jaðarsbakka og Akraneshöllin voru ekki til.
Álagið í hverri grein var í lágmarki, keppnir voru fátíðar og við vorum bara að „leika okkur.“
Sjálfur man ég eftir því að hafa æft fótbolta, handbolta, körfubolta, badminton og sund á sama skólavetrinum. Á þeim tíma var t.d. ein æfing á viku í fótbolta, tvær æfingar í boði í sumum greinum. Álagið í hverri grein var í lágmarki, keppnir voru fátíðar og við vorum bara að „leika okkur.“
Badmintonæfingar voru reyndar að frumkvæði pabba gamla. Hann seldi mér þá hugmynd að það væri betra að hætta þrotlausum æfingum mínum á blásturshljóðfærið trompet. Og fara í badminton í staðinn. Ég var víst ekki að gera góða hluti á trompetæfingunum á Bjarginu og þetta var í fyrsta og eina skiptið sem sá gamli skipti sér af íþróttaiðkun minni. Sjálfur íþrótta – og sundkennarinn.
Ég mætti ekki á allar æfingar og gerði í raun það sem mig langað að gera. Niðurstaðan var sú að það var alltaf eitthvað nýtt og spennandi í boði hjá mér á hverjum degi. Kostnaðurinn við þetta íþróttabrölt var ekki hár að mér skilst af foreldrum mínum. Þjálfararnir voru ekki sérhæfðir, og unnu allt í sjálfboðavinnu. Þeim bera að hrósa enda gerðu þeir allt til þess að halda íþróttastarfinu á floti. Yfir sumartímann æfði ég fótbolta og spilað golf flesta daga. Það var enginn golfkennari og golfvöllurinn var risastórt leiksvæði þar sem við fengum að gera það sem okkur langaði til.
Smátt og smátt fækkuðu greinunum sem ég æfði og þegar uppi var staðið valdi ég körfuboltann – sem þótti stórskrítið í fótboltabænum á þeim tíma. Það er önnur saga og efni í nýjan mjög langan pistil.
Ástæðurnar fyrir því að börn æfa flest hver aðeins eina íþrótt í dag eru margar. Líklega vegur þar stærst að metnaðarfullt starf í stærstu íþróttagreinum hefur leitt af sér snemmbæra sérhæfingu – sem er fjallað um í þessum frábæra pistli eftir Svein Þorgeirsson aðjúnkt við íþróttafræðisvið Háskólans í Reykjavík.
Kostnaður við laun góðra þjálfara hefur leitt af sér hærri æfingagjöld og það er heilmikið flækjustig að koma því þannig fyrir að börn – og unglingar geti æft fleiri en eina íþrótt.
Kostnaður við laun góðra þjálfara hefur leitt af sér hærri æfingagjöld
Það á hinsvegar að vera hægt að auka fjölbreytnina með því að koma fleiri íþróttagreinum í æfingasafnið í viðkomandi íþrótt. Til þess þurfa þeir sem eru þjálfarar, og forsvarsmenn íþróttafélaga að hugsa út fyrir kassann. Og nýta betur þá þekkingu og aðstöðu sem er til staðar á Akranesi.
Íþróttirnar sem börnin mín hafa fengið tækifæri til að æfa eru m.a. fótbolti, körfubolti, sund, fimleika, golf og badminton. Valmöguleikarnir voru mun fleiri – enda úrvalið mikið þegar kemur að íþróttaiðkun á Akranesi. Einkadóttirinn fór meira að segja í barnakór um tíma. Það voru mistök sem hún var fljót að átta sig á – og bræður hennar lærðu af hennar reynslu.
Börnin mín æfðu ekki fleiri en tvær íþróttir á sama tíma, og ástæðan var einföld. Það er dýrt að greiða æfingagjöldin og öllu því sem fylgir íþróttastússinu. Ég veit að í flestum tilvikum fengu börnin mín frábæra þjálfara, upplifun, þekkingu og reynslu sem á eftir að nýtast þeim í lífinu. Og líkamlega fengu þau áskoranir og líkamlega færni sem þau geta nýtt sér í þeirri íþrótt sem þau stunda í dag. Ég hef það á tilfinningunni að mjög fámennur hópur barna -og unglinga fái slík tækifæri á Akranesi. Sumir fá jafnvel ekki tækifæri til þess að stunda íþróttir. Og er það miður – og kostnaðurinn við æfingagjöld, mót og keppnir er þar stærsta hindrunin.
Hér á Akranesi er mikill kraftur í íþróttastarfi barna – og unglinga. Aðstaðan er til fyrirmyndar á mörgum sviðum og miðað við framtíðaráætlanir Akraneskaupstaðar þá verður aðstaðan enn betri á næstu árum.
Áður en ég gerðist íþróttafréttamaður starfaði ég lengi sem íþróttakennari og þjálfari. Og var leikmaður í úrvalsdeild í körfubolta í rúman áratug. Ég hef því fylgst vel með því sem er í gangi hér á Akranesi og víðar í gegnum starfið mitt og sem foreldri.
Getur verið að með tilkomu betri aðstöðu hafi sérstaða íþróttafólks frá Akranesi minnkað?
Á undanförnum misserum hef ég velt því fyrir mér hvort við séum að missa aðeins af lestinni í íþróttabænum Akanesi. Það væri kannski betra að orða það þannig að við nýtum ekki þá möguleika sem eru í boði í frábæru íþróttastarfi bæjarins.
Ekkert félag á Íslandi hefur alið af sér fleiri leikmenn, sem hafa leikið sem atvinnumenn í Evrópu í knattspyrnu og spilað landsleiki fyrir Íslands hönd. Í gegnum áratugina hefur ÍA verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hjá því hafa starfað þjálfarar sem hafa verið duglegir við að innleiða nýja hluti sem hefur sett þá skrefi framar öðrum.
Getur verið að með tilkomu betri aðstöðu hafi sérstaða íþróttafólks frá Akranesi minnkað? Getur verið að það vanti betri grunnþjálfun hjá okkar íþróttafólki? Getur verið að við höfum gleymt að það þarf búa til alhliða íþróttafólk áður en það kemur að því að búa til t.d. sundmann, kylfing, fimleika- eða fótboltakonu.
Getur verið að með þær aðstæður sem voru í boði á árum áður hafi grunnþjálfunin verið betri – og fjölbreyttari? Án þess að hafa það að markmiði. Sem dæmi má nefna að Arnar og Bjarki voru margfaldir Íslandsmeistarar í badminton á yngri árum, Óli Þórðar æfði m.a. handbolta yfir vetrartímann, líkt og Haddi Ingólfs og fleiri góðir kappar. Birgir Leifur Hafþórsson var í handbolta og fótbolta samhliða golfinu þar til hann fór í atvinnumennsku, Valdís Þóra var í fótbolta eins lengi hún gat samhliða atvinnumennsku í golfi, markahrókurinn Pétur Pétursson var m.a. öflugur í öðrum greinum áður en hann fór í atvinnumennsku í fótbolta á sínum tíma. Og fleiri mætti nefna í þessu samhengi.
Ajax og fjölbreytnin
Getur verið að með þær aðstæður sem voru í boði á árum áður hafi grunnþjálfunin verið betri – og fjölbreyttari?
Fjölbreyttni er rauði þráðurinn í því sem kemur hér í framhaldinu. Og knattspyrna er dæmið sem tekið er til viðmiðunar.
Hollenska stórliðið Ajax – er með þá áherslu að ungir knattspyrnumenn úr þeirra röðum æfi einnig júdó, fimleika og frjálsar – samhliða erfiðum knattspyrnuæfingum. Ég veit að Ísland vann Holland í undankeppni EM í knattspyrnu karla og allt það. Ég ætla samt að leyfa Rene Wormhoudt að njóta vafans. Hann veit hvað hann syngur.
Rene Wormhoudt er hugmyndasmiðurinn á bak við þessa nálgun. Hann er þaulreyndur í knattspyrnufræðunum en hann starfar í dag sem styrktar- og þolþjálfari hjá hollenska knattspyrnusambandinu. Wormhoudt hefur haldið fyrirlestra víða og hafa orð hans og ráðleggingar vakið mikla athygli.
Rauði þráðurinn í boðskap Wormhoudt er sá að þau lið sem eru fremst í flokki hvað varðar uppbyggingu og þjálfun yngri knattspyrnumanna nota fjölbreyttar þjálfunaraðferðir og hvetja sína leikmenn til þess að stunda fleiri íþróttir fyrir utan knattspyrnuna.
Wormhoudt var í áratug þjálfari hjá yngri flokkum hjá stórliðinu Ajax í Hollandi sem hefur verið gríðarleg uppspretta leikmanna sem hafa náð langt.
Við missum frá okkur yngri leikmenn ef að fjölbreytnin er ekki til staðar. Það er mikilvægt að æfa sig með boltann en það eru mistök sem við gerum að leyfa þeim ekki að njóta þess sem aðrar íþróttir hafa upp á bjóða,“ segir Wormhoudt m.a.
Að mati Wormhoudt er fyrsta skrefið í átt að atvinnumennsku að búa til einstakling sem er góður íþróttamaður – og þegar því er náð er næsta verkefni að búa einstakling sem er góður í knattspyrnu.
Hjá Ajax er lagt áherslu á greinar á borð við júdó, fimleika og frjálsíþróttir samhliða knattspyrnuæfingu.
Wormhoudt tekur knattspyrnuakademíu Ajax sem dæmi. Þar er lagt áherslu á greinar á borð við júdó, fimleika og frjálsíþróttir samhliða knattspyrnuæfingu.
Sérhæfðar knattspyrnuæfingar eru ekki nema um 55% af æfingum þeirra sem eru 12 ára og yngri hjá Ajax. Fjölbreytnin heldur áfram á aldrinum 15-18 ára þar sem að 35% af æfingum knattspyrnumanna hjá Ajax séu í gegnum aðrar íþróttagreinar – þar sem lögð er áhersla á betri samhæfingu og jafnvægi.
Wormhoudt tekur oft dæmi um leikmenn á borð við Christian Eriksen, Jan Vertonghen og Daley Blind sem voru allir í unglingaakedemíu Ajax. Á fyrirlestrum sínum sýnir hann myndband frá æfingu liðsins þar þeir kepptu í körfubolta. Grundvallaratriðið í þessum boðskap er að það er hægt að verða betri í einni íþrótt með því að stunda aðrar íþróttir samhliða.
Wormhoudt bendir einnig á að rannsóknir sýni fram á að þeir sem stundi einhæfar og sérhæfa sig snemma í einni íþrótt séu líklegri til þess að glíma við meiðsli. „Þeir sem stunda aðeins eina íþrótt eru fjórfalt líklegri til þess að meiðast en þeir sem stunda fleiri íþróttgreinar.“
Ajax hefur verið frumkvöðull í mörg ár og Wormhoudt bendir á að framherjar hjá Ajax séu oftar en ekki settir í stöðu markvarðar til þess að þeir átti sig betur á hvar veikleikarnir eru mestir í varnarlínunni.
Raul Pelaez sem er yfirmaður þekkingarseturs Barcelona á Spáni hefur einnig haldið fyrirlestra sem vakið hafa athygli. Þar segir hann frá því að fjöbreytni sé lykilþáttur í starfi Barcelona og þar fá leikmenn að leika margar stöður á vellinum til þess að öðlast betri skilning á leiknum. Andres Iniesta er leikmaður sem hann nefndi í þessu samhengi. Pelaez sagði einnig frá því að Pep Guardiola fyrrum þjálfari Barcelona og núverandi þjálfari Manchester City, hafi rætt mikið við þjálfara úr öðrum boltagreinum á borð við hand – og körfubolta. Og nýtt sér margt úr þeirra hugmyndafræði til þess að útvíkka sóknar – og varnarleik Barcelona.
11 ára saga Akraneshallarinnar
Laugardaginn 21. október árið 2006 var Akraneshöllin, nýtt fjölnota íþróttamannvirki, vígt á Akranesi. Það eru því 11 ár frá því að aðstaða til æfinga batnaði gríðarlega fyrir knattspyrnuhreyfinguna á Akranesi. Akraneshöllin varð einnig til þess að meira framboð var á æfingatímum í íþróttahúsum bæjarins fyrir önnur félög. Nýtt fimleikahús sem byggt verður á næstu misserum að mínu mati breytt landslaginu til enn betri vegar. Þar gæti skapast tækifæri fyrir íþróttafólk á Akranesi að útvíkka hreyfigetu sína með markvissum hætti – án þess að fimleikar væri þeirra aðalgrein. Og vísa ég þá í rannsóknir og reynslu Wormhoudt sem minnst var á hér að ofan.
Akranes er íþróttabær – og afreksfólk frá Akranesi hefur látið að sér kveða í mörgum íþróttum. Margir hafa náð langt í alþjóðlegum samanburði.
Má þar nefna knattspyrnumennina Pétur Pétursson, Sigurð Jónsson, Ólaf Þórðarson, Arnar og Bjarka Gunnlaugssyni og Þórð Guðjónsson. Laufey Sigurðardóttir braut ísinn á mörgum sviðum fyrir konur í knattspyrnu og var einnig landsliðsmaður í badminton og handknattleik ef mig minnir rétt. Hallbera Guðný Gísladóttir lykilmaður í íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta prófaði flest allt sem var í boði á Akranesi s.s. fimleika, sund, frjálsar en valdi fótboltann að lokum.
Akranes er íþróttabær – og afreksfólk frá Akranesi hefur látið að sér kveða í mörgum íþróttum.
Ragnheiður Runólfsdóttir náði langt í sundíþróttinni og keppti á Ólympíuleikum líkt og Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir, Guðjón Guðmundsson og Ingi Þór Jónsson. Og að lokum nefni ég kylfingana Birgi Leif Hafþórsson og Valdísi Þóru Jónsdóttur – sem bæði hafa náð inn á sterkustu atvinnumótaraðir Evrópu. Þessi listi gæti verið mun lengri, með íþróttafólk úr m.a. kraftlyftingum, skotfimi, hestamennsku og keilu.
Ef litið er yfir íþróttaafrek okkar Skagamanna frá árinu 2006 þegar Akraneshöllin kom til sögunnar er ljóst að ÍA hefur oft verið framar í flokki. Að mínu mati er hægt að gera miklu betur með aukinni fjölbreytni í æfingum hjá einstökum félögum, auka víðsýnina, nýta betur þá þekkingu og aðstöðu sem er til staðar í bænum okkar. Ein leiðin til þess er að búa til betra íþróttafólk áður en við hugum að sérhæfingu og afreksstefnu. Með slíkri hugsun náum við enn lengra en áður – ég er sannfærður um það og vísindin styðja þá skoðun.
Góðar stundir og áfram ÍA.
Sigurður Elvar Þórólfsson.