Valdís Þóra Jónsdóttir úr Golfklúbbnum Leyni á Akranesi var hársbreidd frá sigri á LET Access mótaröðinni en mótaröðin er sú næst sterkasta í Evrópu. Mótið fór fram á Spáni og endaði Valdís Þóra í 2. sæti. Þetta er besti árangur Íslandsmeistarans 2017 á LET Access mótaröðinni. Valdís Þóra, sem var kjörinn íþróttamaður ársins hjá ÍA 2016, var nálægt því að skrifa nýjan kafla í golfsögu Íslands og vera fyrsta íslenska konan til þess að fagna sigri á atvinnumóti.
Valdís og Emma Nilson frá Svíþjóð voru jafnar fyrir lokahringinn á -5 samtals. Valdís byrjaði ekki vel á lokahringnum og var um tíma fimm höggum á eftir Nilson. Frábær lokasprettur hjá Valdísi Þóru dugði ekki til og Nilson fagnaði naumum sigri. Valdís lék hringina þrjá á -5 samtals (66-73-72) en Nilson var á -6 samtals.
Næstu mót hjá Valdísi fara fram í Abu Dhabi, Indlandi og Kína. Það er því mikil törn framundan hjá Skagakonunni sem er í harðri baráttu um að halda keppnisrétti sínum á LET Evrópumótaröðinni.