Nýverið lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fram tillögu í bæjastjórn sem var samþykkt samhljóða. Tillaga Ingibjargar Valdimarsdóttur og Valgarðs L. Jónssonar gengur út á að settur verði upp útileikvöllur fyrir fullorðna. Um er að ræða opið svæði með líkamsræktartækjum.
Í tillögunni er gert ráð fyrir að þessi aðstaða verði á góðum stað á Akranesi þannig að sem flestir hafi aðgang að leikvellinum. Málinu var vísað til umræðu í skóla – og frístundaráði, ásamt skipulags – og umhverfisráði. Eins og áður segir var þessi tillaga samþykkt með 9 atkvæðum eða fullu húsi stiga.
Sjálfstæðismennirnir Ólafur Adolfsson og Einar Brandsson tóku til máls að þessu tilefni og úr orðum þeirra mátti ráða að þeir yrðu á meðal fastagesta á þessum nýja leikvelli bæjarbúa – hvar svo sem hann verður. Gert er ráð fyrir framkvæmdinni í fjárhagsáætlun fyrir árið 2018.
Nýverið var opnaður slíkur leikvöllur í Mosfellsbæ við Klapparhlíð og er myndin frá því svæði.