Það er brött brekka framundan hjá karlaliði ÍA í körfuknattleik sem leikur í næst efstu deild á Íslandsmótinu. Næsti leikur liðsins er gegn Breiðabliki föstudaginn 10. nóvember. Bandaríkjamaðurinn Derek Daniel Shouse, sem er stiga – og frákastahæsti leikmaður ÍA meiddist frekar alvarlega á æfingu í byrjun vikunnar og er óljóst með framhaldið bakverðinum.
Vöðvi í aftanverðu læri slitnaði hjá Shouse og gæti hann verið frá í allt að 2 mánuði. Shouse er lang stigahæsti leikmaður ÍA með tæp 25 stig að meðaltali og rúmlega 10 fráköst í leik.
Fannar Helgason hefur ekki leikið með í undanförnum leikjum vegna meiðsla á hásin og óljóst með framhaldið hjá miðherjanum sterka.
Þar að auki hefur hinn leikreyndi bakvörður Áskell Jónsson ákveðið að ganga í raðir Skallagríms í Borgarnesi. Brekkan er því brött fyrir ÍA í næstu leikjum en liðið er án stiga í neðsta sæti deildarinnar eftir 5 umferðir.