Við eigum 1. árs afmæli – takk fyrir okkur!

Frétt á Stöð 2 í október 2015 vakti mig til umhugsunar að kannski væri ráð að fara að skrifa bara sjálfur jákvæðar fréttir frá heimabænum Akranesi. Á þessum tíma var lítið fjallað um það jákvæða í bænum. Það sem var í fréttum á landsvísu var lykt, brothætt atvinnuástand, fjör í fjölbraut og eitthvað meira vesen. Þegar Skagamaður á áttræðisaldri pakkaði niður í tösku og flutti til Berlínar – og kvaddi með orðunum „Akranes ágætur bær en hálfgerður svefnbær“ þá var ekki aftur snúið. Það varð að gera eitthvað.

Á næstu mánuðum var verkefnið sett í ferli, og skagafrettir.is fór í loftið alveg „óvart“ 10. nóvember 2016. Planið var að setja allt í loftið í lok nóvember en „misskilningur“ varð til þess að vefurinn varð sýnilegur og þá var ekki aftur snúið.

Litli jákvæði bæjarfréttavefurinn skagafrettir.is á sem sagt 1 árs afmæli í dag. Viðtökurnar voru mun meiri en við áttum von á. Og í raun hefur sá sem þetta skrifar aldrei áður fengið meiri viðbrögð á tæplega 20 ára fréttamannaferli.  

Á þessu eina ári hafa rúmlega 700 fréttir farið í loftið á skagafrettir.is. Nánast allar jákvæðar sem gerir tæplega 2 fréttir á dag. Markmiðið í fyrstu var að skrifa í það minnsta eina frétt á dag. Það tókst. 

Á einu ári hafa um tæplega 70.000 gestir komið inn á vefinn, og margir þeirra koma oft í viku.  Lesendur hafa smellt á 300.000 fréttir á þessum tíma – og mest lesna fréttin fékk um 5000 heimsóknir. Við birtum topp 10 listann yfir mest lesnu fréttir ársins síðar.  

Í stuttu máli þá erum við hæstánægð og þakklát fyrir viðtökurnar og hrósið frá ykkur lesendur góðir. 

Fjölskylduverkefnið mun halda áfram á meðan við höfum gaman af þessu – og markmiðið er að gera enn betur. Ef þið hafið áhuga á að birta efni eða koma með ábendingar þá er alltaf opið á [email protected] og á fésbókarsíðunni.

Enn og aftur – takk fyrir fyrsta árið, þið eruð frábær.

Sigurður Elvar Þórólfsson, ritstjóri.