Skagamaðurinn Björn Bergmann Sigurðarson hefur svo sannarlega farið á kostum á þessu ári í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Landsliðsmaðurinn, sem er 26 ára gamall, hefur skorað 14 mörk á tímabilinu en alls hefur hann leikið 36 leiki með Molde frá því hann kom til liðsins frá Wolves á Englandi. Björn er tilnefndur sem leikmaður ársins 2017 en þeir sem koma til greina í kjörinu eru:
Björn Bergmann Sigurðarson, Molde
Nicklas Bendtner, Rosenborg
Tore Reginiussen, Rosenborg
Ohi Omuijuanfo, Stabæk
Það eru fyrirliðar frá félögum úr norsku úrvalsdeildinni sem kjósa leikmann ársins.
Hér fyrir neðan má sjá tölfræðin hjá Birni sem atvinnumaður frá því hann fór frá ÍA til Lilleström árið 2011. Hann var keyptur frá Lilleström af enska liðinu Wolves árið 2012 en var síðan lánaður til Molde og FC Kaupmannahafnar.