Skagamenn eru áberandi í skemmtilegri samantekt sem Húsvíkingurinn Leifur Grímsson birti nýverið á Twitter síðu sinni. Þar hefur Leifur sett saman lista yfir feðga sem hafa leikið með A-landsliði Íslands í knattspyrnu.
Skagamenn eða leikmenn sem hafa leikið með ÍA eru ofarlega á lista og fjölmennir. Eftir því sem best er vitað eru átta leikmenn úr röðum ÍA sem hafa leikið A-landsleik og eiga þeir allir son eða syni sem hafa fetað í fótspor þeirra.
Tveir Skagamenn hafa átt því láni að fagna að eiga fleiri en einn son sem hefur leikið með A-landsliðinu, Þórður Þórðarson og Guðjón Þórðarson. Sá síðarnefndi er í fámennum hópi feðra sem hafa séð þrjá syni sína leika með A-landsliðinu.
Þórður Þórðarson sem var fæddur árið 1930 lék 18 A-landsleiki og synir hans Teitur (1952) og Ólafur (1965) fylgdu í kjölfarið með 41 og 72 leiki. Alls skoruðu þeir feðgar 23 A-landsliðsmörk og aðeins feðgarni Arnór Guðjohnsen og Eiður Smári Guðjohnsen hafa leikið samtals fleiri A-landsleiki og skorað fleiri A-landsliðsmörk.
Guðjón Þórðarson (1955) lék einn A-landsleik sjálfur og stjórnaði síðar A-landsliðinu lengi sem þjálfari. Þrír synir hans léku með A-landsliðinu, Þórður (1973), Bjarni (1979) og Jóhannes (1980) Samtals eiga þeir 116 A-landsleiki, Þórður 58, Bjarni 23 og Jóhannes 30.
Akureyringurinn Sigurður Lárusson (1954) var burðarás í sigursælu ÍA-liði þegar hann lék alls 11-A landsleiki. Synir hans, Lárus Orri (1973) og Kristján Örn (1980) léku um langt árabil með A-landsliðinu.
Feðgarnir Sveinn Teitsson (1931) og Árni Sveinsson (1956) léku báðir með A-landsliðinu en Sveinn var í fyrsta „Gullaldarliði“ Skagamanna og Árni var í sigursælu liði ÍA sem lét að sér kveða m.a. á áttunda áratug síðustu aldar.
Feðgarnir Þórður Jónsson (1934), Karl Þórðarson (1955) léku báðir með A-landsliðinu. Karl var lengi atvinnumaður í Frakklandi og var kjörinn knattspyrnumaður aldarinnar hjá ÍA um síðustu aldarmót.
Halldór Sigurbjörnsson eða Donni (1933) og Sigurður Halldórsson (1957) léku báðir með A-landsliðinu. Donni var í fyrsta Íslandsmeistaraliði ÍA og Siggi Donna var í sigursælu liði ÍA á áttunda áratugi síðustu aldar.
Haraldur Ingólfsson (1970) lék 20 leiki fyrir A-landslið Íslands en sonur hans Tryggvi Haraldsson (1996) er að feta sín fyrstu spor með A-landsliðinu.
Feðgarnir Jón Gunnlaugsson (1949) og Gunnlaugur Jónsson (1974) eiga báðir A-landsleiki að baki líkt og fjölmargir Skagamenn.