Dean Martin: „Tækifæri sem kemur aldrei aftur“

„Þetta er tækifæri sem kemur aldrei aftur og ég ákvað að fara í þetta. Ég hef metnað sem þjálfari og þetta er metnaðarfullt verkefni hjá stærstu þjóð í heimi,“ sagði Skagamaðurinn Dean Martin í viðtali í útvarpsþættinum Akraborgin hjá Skagamanninum Hirti Hjartarsyni í dag.

Dean Martin hefur tekið að sér að vera aðstoðarþjálfari hjá kínverska kvennalandsliðinu en Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrrum landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins tók nýverið við sem þjálfari landsliðsins.

Kínverska landsliðið er í 13. sæti heimslistans en hefur hæst farið í 4. sæti listans.
Kínverjar hafa einu sinni leikið til úrslita á HM kvenna árið 1999 þar sem liðið tapaði gegn Bandaríkjum.
Árið 1996 lék liðið til úrslita á ÓL og tapaði þar gegn Bandaríkjunum.
Kína hefur unnið Asíumeistaratitilinn alls 8 sinnum en rúmur áratugur er frá síðasta titli Kína,
(1986, 1989, 1991, 1993, 1995, 1997, 1999, 2006)

Dean heldur utan til Ástralíu strax á föstudag en þar mun liðið æfa í nokkrar vikur saman fram að jólum.

„Ég er búinn að vera í 22 ár á Íslandi og ég hélt að ég myndi bara endast í 6 vikur þegar ég kom hingað fyrst og byrjaði að æfa í snjónum hjá KA á Akureyri,“ sagði Dean m.a.í viðtalinu en hann hefur starfað hjá KSÍ undanfarin misseri sem þjálfari. „Ég var mjög ánægður í starfinu hjá KSÍ þar sem ég var í 11 mánuði að sjá um hæfileikamótun. Það var erfið ákvörðun fyrir mig að hætta. Ég hef verið ánægður hjá KSÍ, þar fékk ég gott tækifæri í skemmtilegu starfii með frábærum þjálfurum á borð við Þorvald Örlygsson, Þórð Þórðarson og Jörund Áka. En ég valdi að fara að vinna fyrir stærsta þjóð í heimi, þetta tækifæri kemur aldrei aftur,“ bætti Dean Martin við.

Kínverjar hafa einu sinni leikið til úrslita á HM kvenna árið 1999

Dean þekkir Sigurð Ragnar vel því þeir léku saman hjá ÍA árið 1998. „Ég var aðstoðarþjálfari ÍBV á meðan Sigurður Ragnar var þjálfari þar.“

Í starfi sínu hjá kínverska landsliðinu verður Dean Martin með leikmenn landsliðsins í 150-200 daga á ári sem er óvenjulegt miðað við landslið.

„Þetta er svipað og þjálfa félagslið, ég er að fara til Ástralíu að hitta liðið, síðan förum við til Peking og Japan. Það verður þvælingur á okkur,“ segir Dean en viðtalið má hlusta á í heild sinni hér fyrir neðan.