Árgangur 1979 lét mikið að sér kveða á Árgangamóti ÍA sem fram fór um s.l. helgi. Hópurinn er „þéttur“ og stendur vel saman í þeim verkefnum sem þeir þurfa að leysa.
Rándýr þjálfari var ráðinn fyrir mótið en það var enginn annar en útvarpsmaðurinn Þorkell Máni Pétursson eða Máni á X-inu. Og á lokahófi Árgangamótsins stal þessi hópur senunni svo ekki sé meira sagt.
Máni hefur mikla reynslu sem knattspyrnuþjálfari og eins og sjá má á myndinin hér fyrir neðan var hann alls ekki sáttur við lélegustu „ginningu“ knattspyrnusögunnar sem leikmenn 1979 árgangsins buðu upp á.
Hugmyndasmiðurinn á bak við þetta umdeilda „gabb“ var Sveinbjörn Geir Hlöðversson formaður Knattspyrnufélags Kára.
Sveinbjörn ætlaði að „gabba“ mótherjana alveg upp úr skónum eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan.
Það sem kom upp um Sveinbjörn er að hann skýtur aldrei á markið með tunguna úti – aðeins körfuboltamaðurinn Michael Jordan var fær um leika listir sínar í íþróttum með tunguna lafandi.
Hér fyrir neðan leggur Sveinbjörn allt í „gabbið“ og stekkur „hátt“ yfir boltann á meðan andstæðingarnir bíða pollrólegir.
Hermann Geir Þórsson, sem lék með mfl. ÍA á sínum tíma undir stjórn Ólafs Þórðarsonar, kom síðan aðvífandi og þrumaði í boltann með vinstri eins og honum einum er lagið. Hermann hitti reyndar ekki á markið en skotið var fast – virkilega fast.
Eitt helsta umræðuefnið hjá hinum glæsilega 1979 árgangi eftir Árgangamótið 2017 voru búningar liðsins.
Eins og sjá má þá gerði einhver þau grundvallarmistök að setja búningana í þurrkara eftir síðasta þvott.
Eins og flestir vita þá geta sum efni minnkað eða hnökrast í þurrkaranum eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan.
Fleiri myndir frá Árgangamótinu eru hér fyrir neðan: