Yngri kylfingar úr Golfklúbbnum Leyni hafa á undanförnum mánuðum unnið hörðum höndum við að afla fjár fyrir æfinga – og keppnisferð. Stefnt er að því að fjölmennur hópur fari til Spánar í byrjun apríl á næsta ári í vikuferð en slíkar ferðir hafa verið á dagskrá á tveggja ára fresti hjá afrekskylfingum hjá Leyni.
Sú hefð hefur skapast hjá hópnum að bjóða upp á alþrif á bílum þegar þörfin er hvað mest á slíku „dekri“ í skammdeginu og í aðdraganda jólahátíðarinnar.
Fyrri bónhelgi hópsins verður 25.-26. nóvember og sú síðari 2.-3. desember. Verðskráin hefur ekkert breyst frá því sem var í fyrra. Bílinn er tjöruþveginn, þurrkaður, bónaður, og að sjálfsögðu er allt tekið í gegn inni í bílnum, ryksugað, rúður þvegnar og motturnar teknar í gegn.
Verðin eru eftirfarandi:
Litlir fólksbílar 8.000 kr.
Meðalstórir fólksbílar 10.000
Jepplingar 12.000
Jeppar/sendibílar 15.000
Stórir jeppar/sendibílar 17.000