Framinn.is er nýr vefmiðill frá kraftmiklum Skagakonum

„Hugmyndin að vefsíðunni sprettur upp af ákveðinni vöntun sem okkur fannst á vefsíðu sem einblíndi aðeins meira á fræðilegar greinar. Hugmyndin bjó lengi vel bara í kollinum á okkur en þegar við vorum samferða í fæðingarorlofi fyrr á þessu ári þá ákváðum við loksins að kýla á þetta. Það hafði auðvitað áhrif á okkur að eignast báðar dóttur og ætli það sé ekki að einhverju leyti drifkrafurinn á bakvið efnisvalið okkar,“ segja Líf Lárusdóttir og Díana Bergsdóttir við skagafrettir.is en þær settu nýverið í loftið vefmiðilinn framinn.is.

„Við vildum útvega greiðari aðgang að fræðilegu efni og fá til þess sérfræðinga á ákveðnum sviðum til þess að miðla fróðleiknum. Við komumst þó fljótlega að því að fræðilegar greinar eru þungar í vinnslu og það er oft ekki fljótlegt að koma þeim niður á blað. Til þess að hafa eitthvað í gangi reglulega á síðunni verðum við því einnig með léttari greinar, innblástur og hugmyndir.

Díana Bergsdóttir og Líf Lárusdóttir. Mynd/Gunnar Viðarsson.

Gott og fjölbreytt teymi

Einnig höfum við meðal annars fengið í lið með okkur hana Hildi Rut, sem er mikill matgæðingur og gefur hún okkur sýn inní alls kyns rétti sem hún töfrar fram.

Við vildum hafa efnið fjölbreytt svo að sem flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.

Þá höfum við einnig í liði með okkur Anítu Sif Elídóttur sem starfar sem næringarfræðingur á Heilsuborg og Landspítalanum, Arnbjörgu Baldvinsdóttur margmiðlunarhönnuð sem starfar í markaðsdeild WOW air, Hafdísi Bergsdóttur kennara í Brekkubæjarskóla og klæðskera og Eyrúnu Reynisdóttur íþróttafræðing.

Saman myndum við þetta teymi sem sér um skrifin á vefsíðunni.“

Jákvæður og skapandi miðill

Líf og Díana bæta því við að markmiðið sé að skapa vettvang sem er hvetjandi, jákvæður og hefur góð áhrif á stúlkur og konur.

Við viljum að konur geti stutt og styrkt hvor aðra

 

„Við viljum spjalla við konur sem eiga það sameiginlegt að hafa látið drauma sína rætast og komast að því hvað einkennir þær og hvernig ferlið þeirra hafi verið í von um að miðla því áfram og hvetja aðrar konur til þess að gera það sama.

Við viljum að greinarnar séu að mestu leyti fræðilegar, þar sem við kynnumst ákveðnum málefnum og leyfum lesendum að kynnast þeim með okkur. Við viljum að konur geti stutt og styrkt hvor aðra, gefið hvor annarri ráðleggingar og innblástur til þess að verða besta útgáfan af sjálfum sér. Við munum taka fyrir ákveðna framakonu í hverjum mánuði, þar sem við fáum að kynna hana og afrek hennar.“

Líf Lárusdóttir er 26 ára búsett með unnusta sínum, Skagamanninum Ragnari Þór Gunnarssyni ásamt dóttur þeirra Móeyju á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með áherslu á markaðsfræði ásamt því að hafa tekið viðbótarnám í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf í markaðsdeild Gámaþjónustunnar.

Díana Bergsdóttir, er frá Grundarfirði en flutti ung á Akranes. Hún er 26 ára, búsett á Akranesi með kærasta sínum Ragnari Leóssyni, ásamt dóttur þeirra Margréti. Díana lærði Branding and marketing management í VIA Design í Danmörku með áherslu á hönnun. Ásamt því að skrifa inn á framinn.is er hún að skríða úr fæðingarorlofi aftur á auglýsingarstofuna H:N Markaðssamskipti í Reykjavík.

Líf er að stíga sín fyrstu skref í skrifu á vefmiðil en Díana hefur aðeins meiri reynslu og var m.a. í starfsnámi hjá útgáfufélaginu Birtingi þar sem hún fékk að spreyta sig á skrifum í tímaritið Nýtt Líf.

Góðar viðtökur

Viðtökurnar hafa verið góðar frá því að framinn.is fór í loftið.

„Við höfum fundið mjög góðan meðbyr og fljótlega eftir að vefurinn fór í loftið byrjuðum við að fá áhugaverðar ábendingar um viðmælendur sem er skemmtilegt. Við vonum að framhaldið verði eins og að efnið okkar laði að sér enn fleiri lesendur.“