Ný fiskvinnsla Norðusýnar á Akranesi

Fyrir skömmu hóf starfsemi hér á Akranesi fiskvinnsla undir nafninu Norðursýn. Norðursýn er með aðstöðu við Faxabraut á Akranesi. Stofnandi fyrirtækisins er Alexander Eiríksson og fjölskylda hans.

„Það hefur alltaf blundað í mér áhugi á sjónum og fiskvinnslu. Ég vann í fiski hjá HB sem ungur maður áður en leiðin lá annað. Árið 2008 keyptum við bát saman, bróðir minn og pabbi og höfum átt hann síðan og m.a. gert út á strandveiðar. Þá hef ég einnig um nokkurst skeið selt sjávarafurðir í Bretlandi,“ segir Alexander í samtali við skagafrettir.is.

Hugmyndin að fiskvinnslunni spratt upp úr þessum jarðvegi en mér hefur alltaf fundist gaman að vera í kringum fisk og framleiðslu úr sjávarafurðum og ákvað því að láta á þetta reyna

„Hugmyndin að fiskvinnslunni spratt upp úr þessum jarðvegi en mér hefur alltaf fundist gaman að vera í kringum fisk og framleiðslu úr sjávarafurðum og ákvað því að láta á þetta reyna. Við kaupum einungis ferskan fisk af línu og handfærabátum sem landa samdægurs og leggjum mikla áherslu á gæði hráefnisins.

Vinnslan hjá okkur er ekki stór í sniðum en í dag er allur fiskur handflakaður eins og er og seldur annaðhvort ferskur eða lausfrystur. Í dag eru á milli 1-2 stöðugildi hjá okkur en við erum rétt að slíta barnskónum og vonumst til að geta verið hér með nokkur störf þegar fram líða stundir.“

Feðgarnir Alexander og Eiríkur.

Línufiskur tryggir gæðin og ferskleikann

Vörur úr línuþorski og ýsu eru uppistaðan í framleiðslunni hjá Norðursýn.

„Í dag framleiðum við mestmegnis vörur úr línuþorski og ýsu og þá annaðhvort ferskar eða lausfrystar vörur. Sem dæmi framleiðum við lausfrysta þorskbita í 5 kg. kössum sem henta vel fyrir þá sem vilja eiga fisk í frystinum. Einnig flytjum við inn rækju frá Grænlandi og munum fljótlega bjóða upp á ferska og frosna bleikju og jafnvel eitthvað af reyktum afurðum og saltfisk. Vöruúrvalið eykst því jafnt og þétt. Einstaklingar eiga í dag fáa kosti til að nálgast nýjan línufisk, hvort sem hann er ferskur eða frosin en við vonumst til að breyta því og það falli í góðan jarðveg.“

Línufiskur hefur alltaf verið gæðamerki í augum neytenda enda verður fiskurinn ekki ferskari en sá sem berst að landi samdægurs

Einstaklingar okkar meginmarkaður

Alexander bætir því við að markaður Norðursýna sé aðallega einstaklingar og minni fyrirtæki þar sem krafan um góðan og ferskan fisk er til staðar.

„Línufiskur hefur alltaf verið gæðamerki í augum neytenda enda verður fiskurinn ekki ferskari en sá sem berst að landi samdægurs. Við höfum einnig flutt út smávegis af okkar fersku afurðum en það má segja að við séum jafn vandlátir á kaupendurnar og þeir á okkur. Erlendir kaupendur verða að að virða þau gæði sem fólgin eru í þeirri vöru sem við framleiðum.“

Keyrum heim, kaupendum að kostnaðarlausu

Það ríkir mikill metnaður hjá Norðursýn að koma vörunni til viðskiptavina með sem einföldustum hætti:

„Við hjá Norðursýn höfum fjárfest í sérútbúnum bíl sem getur bæði flutt frystar og kældar afurðir. Það vill oft gleymast að til að halda gæðum alla leið að dyrum neytandans þarf kælikeðjan að ná alla leið.

Með þessum hætti getum við einnig nálgast viðskiptavini okkar í dreifbýlinu og fjarlægari þéttbýliskjörnum.

Einnig getur fólkið nálgast okkar afurðir hér hjá okkur á Faxabrautinni en við erum með fasta tíma þegar einstaklingar geta komið til okkar og keypt frosnu afurðirnar. Í dag erum við alltaf með opið milli 10-12 á laugardögum.

Þeir sem vilja fá vörurnar keyrðar heim geta haft samband við okkur á Facebook eða bara hringt. Þá er í undirbúningi hjá okkur að hafa ferska daga þar sem Skagamenn og nærsveitungar geta komið og keypt hjá okkur spriklandi nýjan línufisk, bleikju ofl.“

Þeir sem vilja fá vörurnar keyrðar heim geta haft samband við okkur á Facebook eða bara hringt.

Höfnin og fiskmarkaðurinn

„Framtíðin verður svo að skera úr um hvernig tekst til og eins og flestir vita þá eru blikur á lofti hér á Akranesi varðandi smábátaútgerð í kjölfar þess að fiskmarkaðurinn hér lokaði.

Það er afskaplega mikilvægt hægt verði að endurreisa hér fiskmarkaðinn til að tryggja hér áfram útgerð smábáta með tilheyrandi afleiddum störfum svo ekki sé nú minnst á mann- og atvinnulíf við höfnina,“ sagði Alexander Eiríksson.