Frumkvæði og dugnaður einkennir vinkonurnar Katrínu Leu Daðadóttur, Heklu Maríu Arnardóttur og Sigríði Sól Þórarinsdóttur. Þær standa fyrir tónleikum sem fram fara 20. desember og er markmiðið að safna fyrir Mæðrastyrksnefnd. Skagafréttir.is heyrði í Katrínu vegna tónleikanna og fyrsta spurningin var hvernig þessi hugmyndi hafi orðið til.
„Við höfum allar mikinn áhuga á tónlist og erum að læra á hljóðfæri. Þar að auki er ég og Sigga í söngnámi. Hún er í Tónlistarskólanum hérna á Akranesi hjá Brynju en ég er í skóla í bænum sem heitir Vocalist. Hekla er að læra á píanó og gítar en þar fyrir utan hefur hún sjálf kennt sér á hin ýmsu hljóðfæri og má þar nefna gítarinn, ukulele, bassa trommur og fleira. Sigga æfði lengi á píanó en er núna bara í söngnum. Sjálf er ég svo að læra á gítar í Tónó hérna á Skaganum,“ segir Katrín og það er greinilegt að þeim er margt til lista lagt.
Frá vinstri: Hekla, Sigríður og Katrín.
„Hugmyndin kom að tónleikunum varð eiginlega bara óvart til beint eftir Opna daga í Tónlistarskólanum þar sem við vorum með hljómsveitinni okkar að spila Sweet Child o’ Mine. Sigga stakk þá upp á því þegar hún var komin út í bíl, að við ættum að halda svona jólatónleika og við Hekla samþykktum það bara og höfum nánast verið að æfa síðan.“
Stúlkurnar voru staðráðnar í því að styrkja gott málefni.
„Við vorum strax ákveðnar í að finna góðgerðafélag til að styrkja. Okkur datt nokkur í hug en svo fannst okkur mjög sniðugt að finna eitthvað hérna innan bæjarins. Niðurstaðan að styrkja Mæðrastyrksnefnd því það er frábært málefni og er að gera góða hluti og okkur datt í hug að það væri ef til vill ekki mikið um fjármagn hjá þeim. María sem sér um Mæðrastyrksnefnd tók mjög vel í þetta og er afskaplega þakklát fyrir að við ætlum að styrkja þau. Við erum einnig að taka „gigg“ um bæinn og í Reykjavík til að safna enn meiri pening, og auðvitað fer allur ágóði óskertur til mæðrastyrksnefndar á Akranesi.“
Katrín Lea Daðadóttir er í 9. bekk í Grundaskóla.
Foreldrar hennar eru Lilja Sævaradóttir og Daði Ástþórsson. Stjúpmamma Anna Soffía Víkingsdóttir. Katrín Lea á tvær yngri systur sem heita Elísa og Lovísa.
Hekla María Arnardóttir er í 9. bekk í Brekkubæjarskóla.
Foreldrar eru Helga Rún Guðmundsdóttir og Örn Gunnarsson. Bróðir Heklu heitir Guðmundur Sigurbjörnsson.
Sigríður Sól Þórarinsdóttir er í 9. bekk
Foreldrar hennar heita Þórarinn Ægir Jónsson (Tóti) og Björg Bjarnadóttir:)
Bróðir Sigríðar heitir Björgvin.