3 milljarðar kr. í fjárfestingar á næstu fimm árum

Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2018 og þriggja ára áætlun 2019 til 2021 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Akraness í dag. Einnig var fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun samþykkt. Áætlað er að setja um 3,1 milljarða í fjárfestingar og framkvæmdir á næstu fimm árum án þess að taka lán. Þetta kemur fram á akranes.is. 

Meðal framkvæmda á árinu 2018 eru gatnaviðgerðir við Esjubraut frá Þjóðbraut að svokölluðu spæleggi, niðurrif Sementsverksmiðjunnar, bygging fimleikahúss, bygging frístundahúss við golfvöllinn, uppbygging á Dalbrautarreit og Skógarhverfi, framkvæmdir við Guðlaugu á Langasandi, klára hönnun Jaðarsbakkasvæðis og endurbætur í Brekkubæjarskóla svo fátt eitt sé nefnt. Áætlað er að setja um 3,1 milljarða í fjárfestingar og framkvæmdir á næstu fimm árum án þess að taka lán.

Að sögn Sævars Frey Þráinssonar bæjarstjóra er rekstrarafkoma ársins í ár að stefna í að vera afar góð og því mikilvægt að viðhalda þeim árangri næstu árin en nýta jafnframt til sóknar fyrir bæjarfélagið og frekari eflingu grunnþjónustu fyrir íbúa.

„Sóknarfærin okkar hér á Skaganum eru gríðarleg. Til að mynda tækifæri til að fjölga íbúum með að gera nýja íbúðarreiti byggingarhæfa og með lækkun álagningarstofna fasteignaskatta ætti það að takast vel til að laða að ný fyrirtæki. Þá er gert er ráð fyrir uppbyggingu á 36 íbúðum fyrir tekjulága einstaklinga í samstarfi við Bjarg íbúðafélag og er einnig gert ráð fyrir að allt að fjórðungur af þeim íbúðum geti nýst fyrir fatlaða eða einstaklinga í félagslega kerfinu. Jafnframt er hugað að búsetukjarna fyrir fatlaða sem og uppbyggingu á aðstöðu fyrir félagsstarf aldraða. Hvað íþróttastarf varðar þá er Akraneskaupstaður að auka stuðning við íþróttastarf með hækkun tómstundaframlags og með beinum framlögum til íþrótta- og tómstundafélaga. Uppbygging fimleikahúss og íþróttamannvirkja á Jaðarsbökkum mun gefa aukin tækifæri fyrir eflingu íþróttastarfsins. Jafnframt er áhersla hjá bænum að efla þjónustu við bæjarbúa og viðhalda og bæta ferðamannasegla ásamt því að stíga fyrstu skref í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Jaðarsbökkum. Tímarnir framundan eru afar spennandi.“