Lúðvík: Meiri áhersla á samskipti við þjálfara og iðkendur

„Mér líður mjög vel og ég hlakka mikið til að takast á við þetta starf. Ég hef reyndar verið starfandi yfirþjálfari síðan í ágúst en það er ekki fyrr en núna sem þetta er formlegt og ég get farið að vinna þetta eins og ég sé þetta fyrir mér,“ segir Lúðvík Gunnarsson yfirþjálfari yngri flokka Knattspyrnufélags ÍA í samtali við skagafrettir.is. 

Lúðvík verður með marga bolta á lofti líkt og áður en starfslýsingu yfirþjálfarastarfsins var breytt með það í huga að hann sem yfirþjálfari geti verið í meiri tengslum við iðkendur og þjálfara ÍA.

Frá vinstri: Heimir Fannar Gunnlaugsson formaður uppeldissviðs KFÍA, Lúðvík og Hulda Birna Baldursdóttir framkvæmdastjóri KFÍA.


Þú hefur starfað lengi sem yngri flokka þjálfari, er eitthvað sérstakt sem þú vilt breyta, bæta í starfi KFÍA?

„Það hefur margt gott verið í gangi undanfarin ár. Það má alls ekki gleyma því. En við þessar breytingar nýttum við tækifærið og endurskoðuðum aðeins hlutverk yfirþjálfara. Ég vil leggja meiri áherslu á samskipti við þjálfara og iðkendur en verið hefur. Umfang starfsins var hreinlega of mikið að mínu mati hér áður sem gerði það að verkum að minni tími sem gafst til þess. 

Með aukinni samvinnu við þjálfara vona ég að við getum haldið áfram að bæta okkur

Við höfum tekið nokkra þætti úr fyrri starfslýsingu sem gerir mér vonandi kleift að vera meira á „gólfinu“ en áður hefur verið. Með aukinni samvinnu við þjálfara vona ég að við getum haldið áfram að bæta okkur.“

Staðan á yngri flokka starfi ÍA? Hvernig metur þú hana?

„Heilt yfir tel ég hana vera nokkuð góða. Við erum með marga iðkendur. Það er ákveðinn mælikvarði á að starfið sé gott. Þá eru margir leikmenn í og við yngri landslið Íslands. Það er annar mælikvarði. Aðalmælikvarðinn á gæði yngri flokka starfsins er þó sennilega sá að margir iðkendur eru að skila sér upp í meistaraflokka félagsins. Það væri erfiðara ef getan væri ekki til staðar.“

Frá fótboltaæfingu yngri flokka ÍA.

Aðalmælikvarðinn á gæði yngri flokka starfsins er þó sennilega sá að margir iðkendur eru að skila sér upp í meistaraflokka félagsins.

Markmið og framtíðarsýn hjá þér sem yfirþjálfari?

„Að halda áfram því sem verið er að gera vel og bæta það sem þarf að bæta. Mjög pólitískt svar. En að öllu gamni slepptu þá eigum við að setja markið hátt. Við eigum að stefna á að vera félaga í fremstu röð og ef það á að ganga eftir þá verðum við að vanda okkur á öllum sviðum. Ég lít á þetta sem sameiginlegt átak og legg þar af leiðandi mikla áherslu á að allir sem starfa hjá félaginu leggi sitt að mörkum í að gera félagið okkar betra.“

Lúðvík hefur á undanförnum árum verið forstöðumaður í félagsmiðstöðvunum Arnardal og Þorpinu. Hann var inntur eftir því hvort hann verði áfram í því starfi.

„Já,já ekki spurning. Þetta fer í raun og vera mjög vel saman þar sem þjálfarastarfið er mest megnis seinnipart dags og um helgar.

Ég hef alltaf þjálfað mikið. Síðan ég byrjaði í Þorpinu fyrir rúmum 10 árum hef ég þjálfað 1-2 flokka ásamt því að vera alls konar verkefnum fyrir félagið. 

Þeir sem þekkja mig vita að ég er frekar skipulagður og það sennilega þess vegna sem þetta gengur svona vel.

Það má ekki gleyma því að ég á mjög skilningríka konu sem stendur vel við bakið á mér í þessu öllu saman. Annars gengi þetta ekki upp.“

Valgerður Valsdóttir er eiginkona Lúðvíks og þau voru að eignast sitt þriðja barn á dögunum og það er því nóg að gera á því heimili. 

Lúðvík er einn af mörgum sem hefur fundið leið til þess að gera margt á hverjum degi. Hann hefur þjálfað knattspyrnulið Kára á undanförnum árum með frábærum árangri. Að sögn Lúðvíks hefur hitnað verulega undir honum sem þjálfari Kára og fer það mest eftir því í hvernig skapi formaður félagsins er.

Kári sigurvegari í 2. deild 2017.

Ég verð áfram þjálfari Kára…nema Svenni (Sveinbjörn Hlöðversson) reki mig. Ég veit að þjálfarastaðan var endurskoðuð eftir tímabilið. Svenni vildi að við færum taplausir í gegnum mótið og hann var skiljanlega ekki sáttur við að það skildi ekki nást.

Eftir mikið japl, jaml og fuður náði hann að sannfæra sjálfan sig um að leyfa mér að halda áfram. Það hefur verið virkilega gaman að sjá hversu vel samstarf ÍA og Kára hefur gengið.

Ég veit að þjálfarastaðan var endurskoðuð eftir tímabilið. Svenni vildi að við færum taplausir í gegnum mótið


Þessi tengin er að mínu mati ótrúlega mikilvæg fyrir þá leikmenn karlamegin sem ekki fá tækifæri í meistaraflokki ÍA að loknum 2.flokki.

Í Kára fá þessir leikmenn tækifæri til að halda áfram að þroskast og bæta sig. Þeir þurfa ekki lengur að fara út fyrir Akranes til þess að gera það auk þess sem við getum betur fylgst með þeim ef þeir eru hér á Skaganum,“ sagði Lúðvík Gunnarsson við skagafrettir.is.