Sigurjón skorar á Skagamenn að styðja Rauða krossinn

„Ég ákvað fyrir löngu síðan að fyrr eða síðar myndi ég fara utan svona verkefni fyrir Rauða krossinn. Það hefur alltaf verið erfitt að finna tíma í þetta, sérstaklega á meðan börnin mín voru lítil. Nú fannst mér rétta augnablikið vera komið – á meðan ég er ekki of gamall í svona. Þörfin fyrir lækna er mjög mikil,“ segir Sigurjón Örn Stefánsson svæfingalæknir frá Akranesi við skagafrettir.is.

Sigurjón er þessa stundina staddur í Bangladesh, nánar tiltekið í flóttamannabúðum nálægt Cox’s Bazar í suðurhluta Bangladesh. Sigurjón verður á þessu svæði fram til 15. janúar og hann verður því langt frá fjölskyldu og vinum yfir jólahátíðina.

Teymið sem Sigurjón er að vinna með í Bangladesh. Einn frá Hong Kong, ein frá Nýja Sjálandi, ein frá Finnlandi, einn frá Íslandi og tveir frá Noregi.

 

„Ég er svæfinga- og gjörgæslulæknir og er að vinna á vegum Rauðakrossins í tjaldspítala nálægt flóttamannabúðunum,“ segir Sigurjón þegar hann er inntur eftir því hvað hann sé að gera í Bangladesh.

„Tjaldspítalinn var reistur þarna fyrir um þremur mánuðum síðan af norska og finnska Rauða Krossinum vegna flóttamannavanda þar sem fólk frá Rakinje héraði í Myanmar hefur verið að flýja yfir landamærin til Bangladesh.“

Sigurjón segir að aðstæður séu erfiðar og mörg hundruð þúsund flóttamenn búi við hræðilegar aðstæður.

„Aðstæðurnar eru mjög erfiðar fyrir þetta fólk. Það eru hundruðir þúsunda manna sem eru flóttamenn í Bangladesh og það er ekki ríkt land sem á auðvelt með að taka við þessu fólki, þvert á móti. Fólkið hér býr við hræðilegar aðstæður þar sem mikil vandamál eru með mat, hreint vatn og skjól. Mikil vannæring er meðal barna, mislingar og barnaveiki ganga hér og á hverjum degi þessa dagana er fólk að deyja úr þessum sjúkdómum sem við á Vesturlöndum tökum lítið mark á lengur, svo lítið að fólk er meira að segja að sleppa því að bólusetja börnin sín fyrir þessu.“

„Þessa dagana er fólk að deyja úr þessum sjúkdómum sem við á Vesturlöndum tökum lítið mark á“

Sigurjón fær aðeins að vera í Bangladesh í einn mánuð í þetta sinn.

„Ég verð hér bara í einn mánuð, kem heim aftur til Íslands þann 15. janúar. Það er þannig að hjálparstarfsmenn fá bara leyfi til að vera í Bangladesh í mánuð í senn. Stjórnvöld í Bangladesh taka þessa ákvörðun. Það er þá nýtt fólk í hverjum mánuði sem er dálítið erfitt.“

Fyrir þig sem lækni, er mikilvægt að komast í þessar aðstæður og fá reynslu?

„Veit ekki alveg hvað á að segja um það. Ég er svo sem ekki að læra neitt nýtt sem nýtist mér sérstaklega í mínu starfi heima – flest tæki og tól eru á miklu lægri standard en á Íslandi. Ýmsar meðferðir sem verið er að gefa hér kæmu ekki til greina á Íslandi. Meira að segja lyfin sem notuð eru hér eru í mörgum tilfellum gömul og ódýr lyf sem hafa verið leyst af hólmi á Vesturlöndum af betri lyfjum.

En ég er auðvitað að sjá allskonar hluti sem ég hef aldrei séð áður. Þar má nefna mislinga, barnaveiki, allskonar iðrasýkingar og svo auðvitað bara þessa yfirþyrmandi fátækt og vannæringu. Ég held að allir hefðu gott af því að fara svona – við búum við ótrúlega góðar aðstæður og góða heilbrigðisþjónustu þó allir séu stöðugt að kvarta yfir hinu og þessu.

Hér er fólk að deyja á hverjum degi vegna ýmissa sjúkdóma sem hægt væri að bólusetja fyrir. Líka vegna sjúkdóma eins og lungnabólgu eða astma sem við ráðum oftast vel við heima á Íslandi. Fólk lendir í slæmum fótbrotum og í besta falli grær þá sæmilega en oft missir það fæturna vegna þess eða deyr vegna ígerða og vandamála.

Þú missir líklega af jólunum hvernig tilfinning er það?

„Það verður auðvitað erfitt. Ég vissi það vel áður en ég lagði af stað að það myndu koma tímar þar sem ég sæi eftir öllu saman og fengi bara einhverja ferlega heimþrá. Ég geri alveg ráð fyrir því að Aðfangadagskvöld verði erfitt. Ég verð í vinnunni á Aðfangadag og ætli það verði ekki bara þessi venjulegi frostþurrkaði matur í matinn eins og alla daga – en nýjustu fréttir eru að við þurftum að henda helmingnum af birgðunum okkar því það voru einhverjar bjöllur sem náðu að naga sig gegnum plastið svo vonandi þýðir það að við fáum eitthvað betra.

Ég geri alveg ráð fyrir því að Aðfangadagskvöld verði erfitt

Ég tók með mér eina bók til að hafa á jólunum, eina gjöf er ég með með mér og jólakonfektið hennar mömmu í öskju sem ég ligg á eins og ormur á gulli. Og ég varð mér útum eina kókflösku sem ég henti í lyfjakælinn inná skurðstofu, vel falin bakvið staðdeyfilyf sem enginn er að fara að nota nema ég. Ég læsti skápnum og segi að það sé vegna þess að ég geymi morfín í honum – sem er alveg rétt svo sem svo ég lýg engu um það. Maður verður nú aðeins að reyna að bjarga sér,“ segir Sigurjón og sendir góðar kveðjur heim til Íslands.

Sigurjón minnir einnig á söfnun Rauða Krossins vegna vanda Róhingja:

Upplýsingar um neyðarsöfnun – Róhingjar á flótta í Bangladesh – Senda TAKK i síma 1900 eða hægt að fara inn á vefsíðu Rauða Krossins á Íslandi.

Smelltu á myndina hér fyrir neðan til þess að styrkja Róhingjar á flótta í Bangladesh.