Hestaíþróttamaður ársins: Jakob Svavar Sigurðsson

Aðildarfélög ÍA hafa greint frá því hvaða einstaklingar koma til greina í kjörinu á Íþróttamanni Akraness 2017. Á næstu dögum verður stutt kynning á helstu afrekum íþróttafólksins úr hverri grein fyrir sig.

Á vef Akraneskaupstaðar geta íbúar Akraness tekið þátt í kjörinu og með því að smella hér þá getur þú tekið þátt:

Jakob Svavar er fæddur árið 1975 og æfir með Hestamannafélaginu Dreyra. Í hestamennskunni var árið 2017 ár Jakobs Svavars Sigurðssonar. Hann sigraði í tölti í opnum flokki á fjórðungsmóti Norðvesturlands. Hann varð tvöfaldur Íslandsmeistari í slaktaumatölti og fjórgangi.

Jakob varð heimsmeistari í tölti á heimsmeistaramóti íslenska hestsins og hampaði þar með eftirsóttasta verðlaunagrip Íslands-hestamennskunnar, Tölthorninu. Þar að auki náði Jakob verðlaunasætum í keppnum í hestaíþróttum og gæðingakeppnum og sýndi kynbótahross með afburða góðum árangri.

Á uppskeruhátíð Landssambands Hestamannafélaga var Jakob útnefndur sem Knapi ársins og Íþróttaknapi ársins 2017 og tilnefndur sem gæðingaknapi og kynbótaknapi ársins. J

akob Svavar er fagmaður fram í fingurgóma, metnaðarfullur, einbeittur, hægverskur en alltaf með stefnuna á bestu afköst og uppskeru. Hann undirbýr sig og keppnishrossin með innsýn og næmum skilningi á hvernig er hentugast að byggja upp keppnishestinn og laða fram það besta í honum. Jakob Svavar sýnir ávallt úrvals góða reiðmennsku og keppnishestar hans eru sáttir, þjálir og glaðir í fasi og með jákvæða útgeislun.

Helstu afrek Jakobs Svavars á Íslandi á árinu

  • Jakob Svavar varð tvöfaldur Íslandsmeistari í slaktaumatölti og fjórgangi á hryssunni Júlíu frá Hamarsey. Hann sigraði keppni í tölti á Fjórðungsmóti Norðvesturlands á þeirri hryssu.
  • 2. sæti í tölti í Meistaradeild VÍS.
  • Á uppskeruhátíð Landssambands Hestamannafélaga var Jakob útnefndur sem Knapi ársins 2017.
  • Hann var einnig valinn íþróttaknapi ársins og tilnefndur sem gæðingaknapi og kynbótaknapi ársins.
  • Jakob varð Heimsmeistari í tölti á heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem fram fór í Hollandi í sumar og hampaði þar með eftirsóttasta verðlaunagrip Íslands-hestamennskunnar, Tölthorninu, á Gloríu frá Skúfslæk.
  • Það er enginn vafi á því að Jakob Svavar stendur fremstur í röð fjölmargra afreksknapa í hestaíþróttum á Íslandi/heiminum í dag.