Ingólfur og Skaginn 3X heiðraðir af Viðskiptablaðinu

Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans 3X, tók í dag við viðskiptaverðlaunum Viðskiptablaðsins. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra afhenti Ingólfi verðlaunin fyrir hönd Viðskiptablaðsins á Hótel Sögu. Þetta kemur fram í -frétt á vb.is. 

Skaginn 3X hefur vaxið hratt síðustu misseri og ár. Starfsmannafjöldinn hefur margfaldast og velta Skagans hf., eins dótturfélaganna þriggja, nam 4,3 milljörðum króna árið 2016, sem er 42% aukning frá árinu 2015. Vöxtur fyrirtækisins endurspeglast ágætlega í því að fyrir skömmu undirritaði Skaginn 3X um 4 milljarða króna samning við færeyska fyrirtækið Varðin Pelagic um byggingu uppsjávarverksmiðju á Suðurey í Færeyjum.

Ingólfur segir að nú séu að verða kaflaskil hjá fyrirtækinu. Búið sé að þróa einstakar vörur og nú þurfi að nýta tækifærið til fullnustu.

„Við erum komin með vörur sem við teljum alveg einstakar og jafnframt teljum við að þær eigi gríðarlega mikið inni á markaðnum,“ segir Ingólfur. „Það er ástæðan fyrir því að við höfum verið að stækka mjög hratt síðustu misseri. Það er til þess að geta nýtt þau tækifæri sem ég held að okkar nýja tækni muni veita okkur. Ég trúi því að næstu tvö ár verði mjög viðburðarík hjá Skaganum 3X. Heimurinn er opinn fyrir okkar tækni.“