Það var glatt á hjalla í morgun í Jaðarsbakkalaug þar sem Gamlársmót Gústa fór fram. Þar mættu til keppni í sprettsundi margir af bestu sundmönnum landsins ásamt þaulreyndu og eldra keppnisfólki úr röðum Sundfélags Akraness.
Óhætt er að segja að mótið hafi vakið mikla lukku og glæsileg tilþrif sáust þrátt fyrir töluvert myrkur á meðan keppnin fór fram.
Mótið var haldið að frumkvæði Skagamannsins Ágústs Júlíussonar sem er einn fremsti sundmaður landsins.
Hrafnhildur Lúthersdóttir og Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, sem eru sundfólk ársins 2017, stungu sér til sunds í morgun. Þar voru einnig landsliðssundfólkið Aron Örn Stefánsson og Ingibjörg Kristín Jónsdóttir sem kepptu á Evrópumeistaramótinu á þessu ári líkt og Hrafnhildur og Davíð Hildiberg.
Í mótslok var keppendum og gestum boðið í morgunkaffi í hátíðarsal ÍA. Mótið er að sögn Ágústs komið til að vera og er ætlunin að stækka það á næsta ári og gera enn betur.