Íslenska ríkið hefur verið dæmt til að greiða Hafliða Páli Guðjónssyni 6,5 milljónir króna í bætur vegna ólögmætrar uppsagnar úr starfi aðstoðarskólameistara við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi haustið 2015. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 29. desember síðastliðinn. Frá þessu er greint á mbl.is.
Hafliði hafði starfað sem kennari við Fjölbrautaskóla Vesturlands um árabil og árið 2015 sótti hann um og fékk stöðu aðstoðarskólameistara við skólann, eftir að hafa verið metinn hæfastur af hópi 14 umsækjenda um stöðuna. Ráðningarsamningurinn kvað á um tímabundna ráðningu Hafliða í starfið frá 1. ágúst 2015 til 31. júlí 2020.
Fljótlega komu þó upp samstarfsörðugleikar á milli Hafliða og skólameistara Fjölbrautaskólans, Ágústu Elínar Ingþórsdóttur og endaði það með því að skólameistarinn tók ákvörðun um að vísa Hafliða úr starfi aðstoðarskólameistara þann 28. september 2015 og síðar úr starfi kennara við skólann, þann 8. október 2015.
Alls gerði Hafliði kröfu um rúmlega 63 milljón króna bætur vegna uppsagnarinnar, en fær sem áður segir 6,5 milljónir ásamt dráttarvöxtum. Auk þess þarf íslenska ríkið að greiða Hafliða 1,2 milljónir til viðbótar í málskostnað.
Dómur Héraðsdóms í heild sinni