Kór Akraneskirkju leggur mikið í nýárstónleika í Bíóhöllinni

Kór Akraneskirkju hefur á undanförnum vikum undirbúið sig af krafti fyrir næsta stóra verkefni kórsins. Laugardaginn 6. janúar kl. 20, stendur kórinn fyrir nýárstónleikum í Bíóhöllinni á Akranesi – og er mikið lagt í þetta verkefni. Sveinn Arnar Sæmundsson kórstjóri segir í samtali við skagafrettir.is að um sé að efnisskráin á tónleikunum sé fjölbreytt þar sem þekkt dægurlög verða flutt ásamt nýju efni þar sem hinn kunni lagahöfundur hljómsveitarinnar ABBA, Benny Anderson, kemur við sögu.

„Á efnisskránni verða m.a. íslensk dægurlög í útsetningum eftir Ríkarð Örn Pálsson, Magnús Ingimarsson og Jón Sigurðsson og má þar finna lög eins og Söknuð, Ágústnótt, Bláu augun þín og fleiri þekkt lög en brot úr þeim lögum má finna hér fyrir neðan.

Benny Andersson, eða ABBA Benny, á tvö lög og er annað þeirra að heyrast í fyrsta skipti hér á landi með texta eftir Skagakonuna Jónínu Björgu Magnúsdóttur,“ segir Sveinn Arnar og bendir á að fleiri verk verði frumflutt á tónleikunum.

Auður Guðjohnsen og Guðmundur Óli Gunnarsson.

„Við munum flytja lagaflokkinn Feel the spirit sem inniheldur sjö afrísk-ameríska söngva í útsetningu enska tónskáldsins John Rutter. Þar syngjum við lög eins og Deep river, Steal away og When the saints go marching in. Kórfélagar verða ekki einir á ferð á þessum tónleikum og sett hefur verið saman kammersveit sem skipuð er einvalaliði hljóðfæraleikara.
Stjórnandi á tónleikunum verður Guðmundur Óli Gunnarsson og um einsöng sér Auður Guðjohnsen mezzosópran. Kynnir kvöldsins er hin geðþekka fjölmiðlakona, Margrét Blöndal,“ segir Sveinn Arnar.

Miðasala hefur gengið vel hjá kórfélögum á undanförnum vikum en það er enn hægt að fá miða sem eru seldir í versluninni Bjargi.