Í dag hófst formleg söfnun í minningarsjóð Arnars Dórs Hlynssonar. „Hjá okkur hjá Sansa verður þannig háttur á að í þessari pöntunarviku, sem stendur fram til miðnættis 10. janúar munu 750 kr. af hverjum matarpakka fara í minningarsjóð Arnars Dórs.
„Arnar Dór Hlynsson var topp náungi en ótrúlega óheppinn með veikindi. Hann kvartaði samt aldrei. Minningarsjóður Arnars Dórs er stofnaður af Sansa, Team ´79 og ÍA. Sjóðurinn mun í framtíðinni styðja við bakið á góðum málum sem tengjast uppáhaldsíþróttum Arnars Dórs,“ segir Þórður Már Gylfason eigandi Sansa við skagafrettir.is.
ÍA mun hafa umsjón með minningarsjóðnum og verður úthlutað úr sjóðnum einu sinni á ári.
„Arnar Dór vinur minn lést þann 14. september 2017, langt fyrir aldur fram. Á þeim tíma var ég að setja fyrirtækið á laggirnar og það gafst enginn tími til þess að gera það sem mig langaði að gera til að heiðra minningu hans. Með hjálp margra þá er þessi minningarsjóðurinn nú til. Árgangur 79 sem Arnar Dór tilheyrði á stóran þátt í þessu ásamt ÍA og foreldrum Arnars Dórs.
Niðurstaðan er sú að minningarsjóður Arnars Dórs mun styrkja þau aðildarfélög ÍA sem hann tengdist. Það eru golf, fótbolti og kraftlyftingar. Arnar Dór var mikill stuðningsmaður knattspyrnunnar, hann var á golfvellinum flesta daga og lyfti lóðum af krafti þess á milli.“
Fyrirtækið Sansa sem Þórður Már setti á laggirnar á Akranesi í fyrra sérhæfir sig í því að útbúa matarpakka fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Óhætt er að segja að viðtökurnar hafi farið fram úr björtustu vonum Þórðar.
„Síðasta vika var sú besta frá upphafi, metvika, og ég vona að þessi vika verði ekki síðri til þess að efla minningarsjóð Arnars Dórs. Og að sjálfsögðu er einn af réttum vikunnar uppáhaldsfiskisúpa Arnars Dórs,“ bætti Þórður Már við.
Fyrir þá sem vilja leggja inn á minningarsjóð Arnars Dórs þá er þetta númerið á styrktarreikningnum:
552-14-350047
kt. 670169-2199