Skagamaðurinn Björn Bergmann Sigurðsson hefur samið við rússneska liðið FC Rostov en þar er annar íslenskur landsliðsmaður, Sverrir Ingi Ingason. Rússneska liðið kaupir Björn frá Molde í Noregi þar sem hann hefur leikið vel á undanförnum misserum undir stjórn Ole Gunnar Solskjær fyrrum leikmanns Manchester United.
Björn, sem er 26 ára, gerir samning til tæplega fjögurra ára en hann skoraði 16 mörk á síðustu leiktíð með Molde. Alls hefur Björn leikið 9 leiki með A-landsliði Íslands og hann hefur skorað eitt mark. Hann lék með ÍA á árunum 2007-2008 áður en hann samdi við Lilleström í Noregi. Hann hefur einnig leikið með enska liðinu Wolves og danska liðinu FC Köbenhavn.
Rostov er í 10. sæti af 16 liðum í rússnesku deildinni eftir 20 umferðir. Deildin er í fríi en hefst aftur í byrjun mars en þá mætir Rostov liði Krasnodar á útivelli. Sverrir Ingi hefur átt fast sæti í liðinu en hann hefur spilað 19 af 20 leikjum liðsins í deildinni og hefur í þeim skorað 2 mörk.