Malavísöfnun Grundaskóla skilaði 650.000 kr.

Nemendur í Grundaskóla á Akranesi afhentu nýverið 650.000 kr. en fjárhæðina á að nýta í verkefni Rauða krossins í Malaví.  Rauði krossinn hefur um árabil stutt malavíska systurfélag sitt við ýmis verkefni, m.a. stuðning berskjaldaðra barna til náms, matargjafir í skólum, gerð vatnsdæla og byggingu salerna við skóla.

Nemendur í Grundaskóla hafa stutt verkefni Rauða krossins í Malaví til margra ára. Í desember settu börnin upp Malaví-markað þar sem þau seldu m.a. heimagert sælgæti og smákökur. Þau föndruðu jólakort og merkimiða og ýmist skraut annað sem þau seldu. Þá tóku 9. bekkingar sig til og settu upp kaffihús á markaðnum, hvar þau seldu heitt kakó og nýsteiktar vöfflur.

Gjöf nemendanna mun koma að mjög góðum notum og á heimasíðu Rauða krossins er nemendum Grundaskóla þakkað kærlega fyrir mikilvægan stuðning.