Sílóin falla með „gamla laginu“ í „Sementinu“

Á undanförnum dögum hefur verktakafyrirtækið Work North ehf. beitt „hefðbundinni“ aðferð við niðurrif á fjórum sílóum í Sementsverksmiðjunni. Tvívegis var sprengiefni eða dínamít notað til þess að fella sílóin fjögur.

Þær tilraunir tókust ekki og sagði Þórarinn Auðunn Pétursson að það væri fullreynt og næst yrði hafist við að fella mannvirkin með vélum.

Eins og sjá má í þessu myndbandi sem tekið var síðdegis í dag eru tveir af turnunum fallnir og verkið var langt komið.

Margir íbúar Akraness hafa lagt leið sína á Suðurgötuna á undanförnum dögum til þess að fylgjast með gangi mála í verkinu.

Í dag var þar staddur einn af þeim sem voru í fremstu röð þegar Sementsverksmiðjan var byggð, – Alfreð Viktorsson, og hafði hann frá mörgu að segja við útsendara Skagafrétta.