„Fyrirmynd, nágranni, mótherji og nú loks samherji,“ skrifar Skagamaðurinn Tryggvi Hrafn Haraldsson á Instagram eftir 4-1 sigur Íslands gegn Indónesíu í gær. Þar skoraði annar Skagamaður, Arnór Smárason, annað mark leiksins og en Tryggvi skoraði eitt marka Íslands í fyrri leiknum sem endaði 6-0 fyrir Ísland. Tryggvi er ekki í vafa um að Arnór hafi rutt brautina og verið fyrirmynd en Arnór er fæddur árið 1988 en Tryggvi Hrafn er fæddur árið 1996.
Svo skemmtilega vill til að foreldrar Arnórs og Tryggva hafa verið nágrannar í mörg ár á Bjarkagrundinni. Það eru ekki margar „götur“ á Íslandi sem getað státað sig af því að eiga tvo leikmenn í A-landsliðinu í knattspyrnu.
Móðir Tryggva, Jónína Víglundsdóttir, segir á fésbókinni að Arnór hafi oft verið með Smára Guðjónssyni á æfingum þegar hann þjálfari mfl. kvenna hjá ÍA þar sem Jónína var leikmaður.
„Þá sá ég strax að hann ætti eftir að verða mjög góður í fótbolta. Þá var Tryggvi nú ekki orðin hugmynd einu sinni. Arnór hefur í gegnum tíðina fylgst vel með nágrannastrákunum og tekið í bolta með þeim yngri á gervigrasinu þegar hann hefur verið heima fríi,“ skrifar Jónína á fésbókina.