Gríðarleg stemning var á Þorrablóti Skagamanna sem fram fór í gær í íþróttahúsinu við Vesturgötu. Um 700 manns mættu á blótið sem fáir Skagamenn vilja missa af. Árgangur 1971 sá um framkvæmd Þorrablótsins líkt og áður – og er óhætt að segja að sá hópur hafi unnið þrekvirki með frumkvæði sínu og framkvæmdargleði.
Að venju var boðið upp á frábær skemmtiatriði og veislustjórinn Sólmundur Hólm fór á kostum í sínu hlutverki.
Annállinn sem 1977 árgangurinn tók saman sló í gegn og verður gaman að fá að rifja hann upp hér á síðum Skagafrétta síðar. Söngatriðin voru glæsileg þar sem að Sigríður Beinteinsdóttir og Helgi Björnsson stigu á stokk. Blótsgestir kunnu vel að meta atriði sem þjóðlagasveitin Slitnir Strengir bauð upp á – og fleira mætti telja upp í þessari stuttu samantekt. Skagahljómsveitin Bland sýndi hvað í henni býr með því að halda uppi fjörinu á dansgólfinu langt fram eftir nóttu.
Skagamaður ársins var útnefndur og fékk Sigurður Elvar Þórólfsson ritstjóri skagafrettir.is þann heiður að þessu sinni. Það er óvíst að fjallað verði meira um þann titil hér á síðum skagafrettir.is 😉
Í tilkynningu frá Club 71 þakkar hópurinn öllu því frábæra fólki sem lagði sitt af mörkum til að gera gærkvöldið jafn ótrúlega glæsilegt og eftirminnilegt og raun bar vitni. Fjöldi sjálfboðaliða og starfsmanna við störf við undirbúning, blótið sjálf og frágang, glæsilegir listamenn, veitingafólk, veislustjóri og styrktaraðilar en ekki síst verður að þakka þeim tæplega 700 Skagamönnum sem greiddu sig inn, nutu veislunnar og sköpuðu andrúmsloft kvöldisins. Ekki má svo gleyma því að búast má við að afraksturinn geti orðið um 3 milljónir króna sem rennur til íþróttastarfs hér á Skaganum. Takk kærlega fyrir okkur!
Hér eru nokkrar ljósmyndir frá Þorrablóti Skagamanna sem Gunnhildur Lind Hansdóttir tók fyrir skagafrettir.is í gær. Von er á myndasyrpu frá kvöldinu og kemur hún hér inn á skagafrettir.is við fyrsta tækifæri.