Takk Bjarnheiður Hallsdóttir fyrir að nenna því að vekja athygli á slæmu ástandi Kjalarnesvegar á Vesturlandsvegi var það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég settist niður í Tónbergi í kvöld. Þar var fullt út úr dyrum á opnum fundi um samgöngumál á Vesturlandi, báðar sjónvarpsstöðvarnar mættar á svæðið, ráðherrar, alþingismenn, sveitastjórnarfólk ásamt áhugasömum íbúum á Akranesi og víðar.
Ég efast um að fundur um slíkt málefni hafi vakið eins mikla athygli ef ekki hafi verið fyrir frumkvæði Bjarnheiðar Hallsdóttur, og bræðranna Alexanders og Eiríks Þórs Eríkssona sem settu af stað undirskriftarsöfnun samhliða stofnun þrýstihópsins Til öryggis á Kjalarnesi.
Ég bjóst við að þessi fundur yrði eins og þurrt tekex. Önnur varð raunin og eiga þeir sem stóðu að fundinum hrós skilið fyrir fagleg vinnubrögð. Bæjarstjórn Akraness boðaði til fundarins ég er ekki í vafa um þar á bæ séu allir ánægðir með hvernig til tókst.
Samstaða sveitastjórna á Vesturlandi um forgangsröðun verkefna var öllum ljós sem sátu fundinn og ráðherra samgöngumála fékk margar ábendingar sem hann getur unnið úr með sínum fólki á næstu vikum.
Á fundinum var eftirfarandi yfirlýsing samþykkt með dynjandi lófataki þegar fundargestir risu úr sætum:
Opinn fundur um samgöngumál á Vesturlandi skorar á samgönguyfirvöld og Alþingi að bregðast tafarlaust við ótryggu og hættulegu ástandi Vesturlandsvegar á Kjalarnesi með nauðsynlegum framkvæmdum og tryggi jafnframt að tvöföldun Vesturlandsvegar frá Hvalfjarðargöngum til Reykjavíkur verði lokið innan þriggja ára. Skoðaðar verði allar leiðir sem flýtt geti þeim framkvæmdum enn frekar til að auka umferðaröryggi og greiða för.
Sá sem þetta skrifar hefur á undanförnum vikum fundað með aðgerðahópi Til öryggis á Kjalarnesi sem hefur á að skipa afar góðu fólki. Og sá hópur er líklegur til vandræða ef áhugi ráðamanna á verkefninu um bættar samgöngur á Kjalarnesi dvínar. „Við ætlum að hlekkja okkur við eitthvað dót og loka veginum,“ var sagt á einum fundinum og það verður gert ef ekkert breytist.
Rakel Óskarsdóttir bæjarfulltrúi á Akranesi setti fundinn og kom því sterklega til skila að mikil samstaða væri á meðal sveitastjórna á Vesturlandi að það þyrfti að fara í aðgerðir nú þegar.
Ræða hennar hefst á 15.20 mín í útsendingunni hér fyrir neðan og lýkur á 20.28 mín.
Eyjólfur Árni Rafnsson formaður starfshóps um möguleika á framkvæmdum á stofnleiðum í nágrenni Reykjavíkur og fjármögnun þeirra var næstur á dagskrá. Erindi hans var áhugavert en það fjallaði um flýtingu vegframkvæmda og fjármögnun þeirra. Eyjólfur leyndi ekki þeirri skoðun sinni að það væri þörf á því að finna aðrar lausnir á fjármögnun samgöngumannvirkja og með nýrri tækni væri hægt að tímamæla notkun hvers og eins. Erindi Eyjólfs vakti mig til umhugsunar að kannski væri hægt að fara ýmsar leiðir í fjármögnun umferðamannvirkja.
Ræða Eyjólfs hefst á 23.34 mín í útsendingunni hér fyrir neðan og lýkur á 43.15 mín.
Næst á dagskrá var erindi frá Geirlaugu Jóhannsdóttur sveitarstjórnarfulltrúa úr Borgarbyggð. Titill erindis hennar var Lífæð Vesturlands. Geirlaug er eins og margir á Vesturlandi að sækja vinnu á Höfuðborgarsvæðið. Hún var líkt og aðrir sveitastjórnarmenn á Vesturlandi með forgangsröðunina á hreinu, vegbætur nú þegar á Kjalarnesi og tvöföldun vegarins í kjölfarið.
Ræða Geirlaugar hefst á 44.00 mín í útsendingunni hér fyrir neðan og lýkur á 58.20 mín.
Kristinn Jónasson bæjarstjóri í Snæfellsbæ fór yfir brýnustu úrbætur í vegamálum fyrir Vesturland í sinni ræðu. Hann var mjög líflegur og sagði skemmtilegar sögur samhliða áherslum sínum. Kristinn er opinn fyrir ýmsum leiðum til fjármögnunar á samgöngubótum á Vesturlandi og fór hann yfir áherslur sem samtök sveitafélaga á Vesturlandi hafa komið sér saman um í þessu máli.
Ræða Kristins hefst á 59.20 mín í útsendingunni hér fyrir neðan og lýkur á 1.15.20 klst.
Það biðu margir spenntir eftir því að Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra tæki til máls. Sigurður Ingi komst að mínu mati vel frá sínu. „Ég er hingað kominn til að hlusta á ykkur og fá hugmyndir og innsýn í ykkar áherslur,“ sagði Sigurður Ingi m.a. en hann hefur verið ráðherra samgöngumála í tæplega 6 vikur. Það kom skýrt fram í máli Sigurðar að gjaldtaka í Hvalfjarðargöngum kæmi ekki til greina eftir að Spölur skilar göngunum í sumar til íslenska ríkisins. Fundargestir klöppuðu þegar ráðherra sagði frá því. Það er ljóst að sá þrýstingur sem Sigurður Ingi fann fyrir á þessum fundi mun án efa skila einhverju og þrýstihópur um öryggi á Kjalarnesi mun án efa halda ráðamönnum við efnið á næstu misserum.
Ræða Sigurðar Inga hefst á 1.17.20 klst. í útsendingunni hér fyrir neðan og lýkur á 1.36.30 mín.
Bjarnheiður Hallsdóttir, talsmaður hópsins Til öryggis á Kjalarnesi afhenti Sigurði Inga undirskriftir frá 5.500 manns sem krefjast þess að ráðist verði í endurbætur á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi nú þegar. Og í framhaldi verði tvöföldun vegarins sett á dagskrá. Fundargestir tóku gríðarlega vel undir ræðu Bjarnheiðar sem vakti mikla athygli. Þar voru ýmsar staðreyndir um Kjalarnesveginn settar fram.
Hér má sjá upplýsingarnar sem Bjarnheiður lagði fram á fundinum.
Ræða Bjarheiðar hefst á 1.40.00 klst. í útsendingunni hér fyrir neðan og lýkur á 1.47.10 klst.
Magnús Magnússon ritstjóri Skessuhorns afhenti Bjarnheiði skóflu sem hann sjálfur fékk afhenta þegar Reykjanesbrautin var opnuð á sínum tíma eftir að hafa verið tvöfölduð. Magnús sagði að íbúar og ráðamenn á Vesturlandi hefðu sofið á verðinum allt frá árinu 2004. Lítið hefði gerst í samgöngubótum á Vesturlandi og hann var ánægður með framtak Bjarnheiðar og samstöðuna sem væri til staðar hjá sveitastjórnum og alþingismönnum Vesturlands.
Ræða Magnúsar hefst á 1.48.00 klst. í útsendingunni hér fyrir neðan og lýkur á 1.52.10 klst.
Ýmsar spurningar komu síðan úr sal og flestar þeirra voru þess efnis að Sigurður Ingi svaraði þeim í lok fundar.
Spurningar úr sal og svör ráðherra hefjast á 1.52.00 klst. í útsendingunni hér fyrir neðan og þeim lýkur á 2.14.00 klst.
Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi sleit fundinum með því að afhenda Sigurði Inga áskorun frá fjölda fyrirtækja á Vesturlandi sem krefjast þess að endurbætur á Kjalarnesvegi hefjist nú þegar og tvöföldun vegarins verði sett í forgang í kjölfarið.
Ræða Sævars hefst á 2.14.30 klst. í útsendingunni hér fyrir neðan og henni lýkur á 2.23.00 klst.
Fundurinn var í beinni útsendingu á ÍA TV og má horfa á hann í heild sinni hér fyrir neðan. Frábært framtak hjá forsvarsmönnum ÍA TV sem vinna þetta allt í sjálfboðavinnu.
Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar: