Minningu Hauks frá Býlu haldið á lofti við smábátahöfnina

Skagamenn og gestir á Akranesi hafa margir tyllt sér niður á bekk sem settur var upp vorið 2016 ofan við smábátahöfnina á Akranesi. Bekkurinn er tileinkaður minningu Hauks Sigurbjörnssonar, sem oft var kenndur við bæinn Býlu í Hvalfjarðarsveit.

Systkini Hauks gáfu bekkinn í tilefni þess að hann hefði fagnað 60 ára afmæli sínu 22. desember árið 2016.

Synir Hauks og barnabörn við bekkinn góða. Frá vinstri: Haukur Andri Jónsson, Valentínus Hauksson, Orri Þór Jónsson, Jón Þór Hauksson og Sigurbjörn Hauksson. Myndirnar tók Alla Sig.

Staðsetningin á vel við þar sem að Haukur stundaði sjómennsku stóran hluta af starfsferlinum. Hann varð bráðkvaddur á bryggjunni við Brjánslæk þann 5. apríl árið 2012.

Á bekkinn er grafið nafn Hauks og Síldin AK-88 en það er nafn bátsins sem Haukur átti og stundaði sína sjósókn á. Haukur á 3 syni, þá Jón Þór, Sigurbjörn og Valentínus og eru sonarsynir hans þeir Orri Þór og Haukur Andri Jónssynir.

Haukur Sigurbjörnsson. / Mynd Ljósmyndasafn Akraness.