Sigurður Heimir hannaði nýtt merki Skagafrétta

Á síðustu vikum hefur skagafrettir.is notað nýtt merki sem verður helsta einkenni fréttavefsins.

Merkið var hannað af Sigurði Heimi Guðjónssyni frá Akureyri en hann á ættir að rekja á Akranes í gegnum föður sinn og móður.

Sigurður Heimir, er fæddur árið 1993, og fékk frjálsar hendur þegar kom að hönnun merkisins. Hann útfærði fjölmargar útgáfur og án efa verða einhverjar þeirra notaðar við sérstök tilefni síðar.

Sigurði Heimi er margt til lista lagt, hann er grafískur hönnuður, og hefur einnig getið sér gott orð í sviðslistum sem karakterinn Gógó Starr. 


Við þökkum Sigga kærlega fyrir hans framlag í fjölskylduverkefnið skagafrettir.is en Sigurður Heimir er bróðursonur Þórólfs Ævars Sigurðssonar sem hefur gríðarleg ítök í ritstjórnarstefnu skagafrettir.is.

Sigurður Heimir er hér ásamt foreldrum sínum og systur. Frá vinsti; Sigurður Heimir, Valgerður, Guðjón og Katrín Guðrún.

Eins og áður segir á Sigurður Heimir ættir að rekja á Akranes, faðir hans er Guðjón Heimir Sigurðsson, en foreldrar hans voru þau Sigurður Guðjónsson og Guðbjörg Þórólfsdóttir.

Móðir Sigurðar Heimis og eiginkona Guðjóns er Valgerður Bragadóttir en foreldrar hennar eru enn búsett á Akranesi, þau heita Bragi Magnússon og Katrín Guðrún Ólafsdóttir.