Kjör starfsmanna Norðuráls eru vel samkeppnishæf og í mörgum tilvikum mjög góð samkvæmt þessari frétt á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness.
Fjölmargir íbúar á Akranesi starfa hjá fyrirtækinu og eru þessar fréttir því gleðiefni fyrir margar fjölskyldur.
Þann 1. janúar s.l. hækkuðu laun starfsmanna um 6,51% sem gerir það að verkum að heildarlaun hjá byrjanda á vöktum í kerskála hækkuðu um 40.000 kr., og hjá starfsmanna með 10 ára reynslu um 45.000 kr.
Heildarlaun byrjanda á vöktum í kerskála fyrir 182 vinnustundir eru rétt tæplega 610.000 kr. Starfsmaður með 10 ára reynslu fær rétt rúmar 733.000 kr. á mánuði í heildarlaun fyrir 182 vinnustundir.
Iðnaðarmenn fá einnig launahækkun hjá Norðuráli sem nemur 50.000 kr. á mánuði hjá byrjanda á vöktum og tæplega 60.000 kr. fyrir iðnaðarmann með 10 ára reynslu.
Heildarlaun iðnaðarmanns sem er að hefja starfsferilinn hjá Norðuráli er rétt um 780.000 kr. á mánuði og þeir sem eru með 10 ára starfsreynslu eru með tæplega 950.000 kr. í heildarlaun eftir þessa hækkun
Laun starfsmanna Norðuráls eru vísitölutengd og á síðasta ári hækkuðu laun þeirra um 9% og núna um 6,51%.
Orlofs-og desemberuppbætur hækkuðu líka um 6,51% eru í dag 214.923 kr. hvor fyrir sig eða samtals 429.466 kr. á ári.