Hestamannafélagið Dreyri hefur á undanförnum misserum óskað eftir því að reiðhöll verði byggð á svæði félagsins við Æðarodda. Félagið hefur rætt þessi áform við forráðamenn hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðarsveit – en félagið er með starfsaðstöðu í báðum sveitarfélögunum.
Nýverið samþykkti sveitastjórn Hvalfjarðarsveitar að leggja það til að skipuð verði nefnd um málefni reiðhallarinnar. Í nefndinni verða fulltrúar frá hvoru sveitarfélagi fyrir sig og tveir fulltrúar frá Dreyra.
Hlutverk nefndarinnar verður að skoða mögulega uppbyggingu, eignarhald og rekstrarfyrirkomulag slíks mannvirkis.
Bæjarráð Akraness hefur tilnefnt Einar Brandsson í nefndina sem verði að öðru leyti skipuð einum fulltrúa frá Hvalfjarðarsveit og tveimur fulltrúum frá Dreyra og er gert ráð fyrir að nefndin skili af sér tillögum fyrir 15. apríl næstkomandi.
Félagsmenn Dreyra leggja áherslu á að reist verði reiðskemma sem geti nýst þeim í marga áratugi.
Áformin ganga út á að reisa reiðhöll sæm væri 25×40 metrar að stærð eða 1000 fermetrar.
Til samanburðar þá er gólfflötur íþróttahússins við Vesturgötu 20×40 metrar eða 800 fermetrar.
Áætlað er að reiðhöllin verði staðsett sunnan við félagsheimili Dreyra á Æðarodda.