Starfsmenn Elkem Ísland fá 5,51% launahækkun

Laun starfsmanna hjá Elkem Ísland á Grundartanga fengu um 5,51% í launahækkun í byrjun ársins 2018 og þeir fá einnig 120.000 kr. í eingreiðslu vegna breytinga á launatímabili. Þetta kemur fram á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness.

Ofngæslumaður á þrískiptum vöktum fær um 30.000 kr. hækkun á mánuði.  Þeir sem eru í slíku starfi og með 10 ára starfsreynslu fá rúmlega 35.000 í hækkun á mánuði.

Heildarlaun ofngæslumanns hjá Elkem sem er að byrja starfsferilinn hjá fyrirtækinu eru rétt rúmlega 500 þúsund kr. á mánuði og þeir sem eru með 10 ára starfsreynslu eru með tæplega 600.000 kr. í heildarlaun á mánuði.  Vinnuskyldan á mánuði er 148 tímar.

Orlofs-og desemberuppbót hækkar einnig um 5,51%, en samanlagt er það 426.260 kr. á ári.