Skagamenn eru margir hverjir með allt á hreinu þegar kemur að því að fóðra smáfuglana yfir kaldasta tíma ársins. Við hér á skagafrettir.is bendum Skagamönnum á að muna eftir smáfuglunum – það er kalt í veðri og fuglarnir stóla á mannfólkið við slíkar aðstæður.
Vignir Jóhannsson listamaður birti þetta myndband af fuglum í garði á hér á Akranesi sem fengu „veislumat“
Í frosthörkum þurfa fuglar mikla orku til að halda á sér hita og því er feitmeti, svo sem tólg, kjötsag, dýrafita, flot og mör, ein allra besta fæðan sem þeir fá.
Hvað á maður að gefa smáfuglum, skógarþröstum og öðrum, að éta úti í garði á veturna? Á Vísindavef HÍ kemur efirfarandi fram.
Þegar vetrarhörkur ríkja sækja þúsundir fugla til byggða í fæðuleit og fjölmargir landsmenn bera út fæðu fyrir þá. Á höfuðborgarsvæðinu yfir vetrartímann eru algengustu smáfuglarnir skógarþröstur (Turdus iliacus), stari (Sturnus vulgaris), hrafn (Corvus corax), snjótittlingur (Plectrophenax nivalis) og auðnutittlingur (Carduelis flammea).
Í frosthörkum þurfa fuglar mikla orku til að halda á sér hita og því er feitmeti, svo sem tólg, kjötsag, dýrafita, flot og mör, ein allra besta fæðan sem þeir fá. Það er misjafnt eftir tegundum í hvaða fæðu fuglarnir sækja. Almennt sækir stari í alla matarafganga, meðal annars brauðmeti, kartöflu- og fiskafganga en fita og tólg hentar honum vel. Skógarþrestir og svartþrestir eru mjög sólgnir í epli og perur. Æskilegast er að láta ávextina á stöðugan stað, til dæmis festa þá á trjágrein þar sem fuglarnir geta setið og bitið í eplið eða peruna í frið og ró. Skógarþrestir eru einnig sólgnir í mör og kjötsag, auk brauðmylsnu og berja.
Auðnutittlingar og snjótittlingar eru fræætur og best er að gefa þeim fræ, svo sem gára- eða finkufræ. Í áraraðir hefur verið hægt að kaupa sérstakt fuglafóður í verslunum hér á landi. Fóðrið er sérstaklega ætlað snjótittlingum og í því er annað hvort kurlaður maís eða ómalað hveitikorn.
Auðnutittlingar eru ekki hrifnir af maísnum en þeir eru sólgnir í hveitið. Í miklum kuldum er oft gott að blanda matarolíu eða smjörlíki við fóðrið til þess að gera það orkumeira. Eftirsóknarverð fæða hjá auðnutittlingum er gára- og/eða finkufræ. Hirsi- og kornstönglar, sem ætlaðir eru búrfuglum, eru einnig vinsælir hjá þeim.
Hrafnar eru mest fyrir kjötmeti en leggja sér engu að síður ýmislegt annað til munns í harðindum. Til að laða hrafna í fæði er best að gefa þeim á opnu svæði. Hrafnar eru stórir fuglar og þurfa mikið rými auk þess að vera afar tortryggnir gagnvart mönnum.
Fjölmargar aðrar fuglategundir sækja í fóður á veturna, meðal annars flækingsfuglar eins og silkitoppur (Bombycilla garrulus), gráþröstur (Turdus pilaris) og garðöngvari (Sylvia borin). Seint á veturna og snemma á vorin eru mávar komnir til landsins og sækja þá í ýmsa matarafganga. Hettumávur (Larus ridibundus) og sílamávar (Larus fuscus) teljast vart til vinsælustu fugla á Íslandi. Meðal annars finnst mörgum bæjarbúum vera ónæði af þeim þar sem þeir eru snemma á ferð á morgnanna og láta hátt. Á þessum árstíma sækja þeir í matarafganga sem bæjarbúar hafa lagt út fyrir aðrar tegundir.