Valdís Þóra keppir á meðal þeirra bestu í Ástralíu

Valdís Þóra Jónsdóttir tryggði sér keppnisrétt á ISPS mótinu á LPGA mótaröðinni, sterkustu mótaröð í heimi, með frábærum hring á úrtökumóti í Ástralíu. Alls tóku 100 kylfingar þátt á úrtökumótinu og voru þrjú sæti í boði.

Valdís Þóra, sem er úr Golfklúbbnum Leyni á Akranesi, lék á -3 og voru þrír kylfingar jafnir og efstir. Valdís Þóra, sem er Íslandsmeistari í golfi 2017, verður því á meðal keppenda á mótinu sem hefst á fimmtudaginn. Þar keppa flestir af bestu kylfingum heims.

„Ég vona að ég gæti bætt leik minn enn frekar á næstu dögum. það hefur verið erfitt að æfa innandyra að undanförnu. Ég lék öruggt golf og lenti ekki í vandræðum, var með eitt þrípútt. Ég þurfti bara að ýta boltanum ofaní á flestum holunum – þetta verður skemmtileg vika sem er framundan,“ segir Valdís Þóra í viðtali á heimasíðu mótsins.

Valdís Þóra og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur verða því báðar á meðal keppenda á þessu móti. Þetta er í fyrsta sinn sem þær Valdís og Ólafía keppa á sama móti á LPGA mótaröðinni.

Þær keppa síðan báðar í næstu viku á LET Evrópumótaröðinni í Ástralíu og framundan eru því tvö áhugaverð mót þar sem að tvær fremstu golfkonur Íslands eru á meðal keppenda.