Þórdís stefnir á að verða varaformaður Sjálfstæðisflokksins

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Íslands, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir , hefur ákveðið að bjóða sig fram til embættis varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Þórdís Kolbrún er fædd á Akranesi og hefur verið Alþingismaður Norðvesturkjördæmis frá árinu 2016 .

Þórdís Kolbrún greindi frá þessari ákvörðun sinni í morgun á fésbókarsíðu sinni.

Kæru vinir,

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til embættis varaformanns Sjálfstæðisflokksins.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að gegna margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn á undanförnum árum sem framkvæmdastjóri þingflokksins, aðstoðarmaður ráðherra, frambjóðandi í tvennum alþingiskosningum og ráðherra í tveimur ríkisstjórnum. Þetta hafa verið krefjandi verkefni en fyrst og fremst gefandi, því að það er í senn ástríða mín og forréttindi að vinna að framgangi sjálfstæðisstefnunnar, eiga samtöl og samvinnu við fólk og hlúa að framtíð og tækifærum íslensks samfélags.

Það hefur verið dýrmætt að fá hvatningu víða að og hún vegur þungt í minni ákvörðun. Ég hlakka til að eiga samtöl við sem flesta á næstu dögum og vikum um sóknarfæri okkar Sjálfstæðismanna.

Sjáumst og heyrumst!

Þórdís Kolbrún er fædd á Akranesi 4. nóvember 1987. Foreldrar hennar eru Gylfi R. Guðmundsson (fæddur 16. mars 1956) þjónustustjóri, sonur Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur alþingismanns, systursonur Guðjóns A. Kristjánssonar alþingismanns, og Fjóla Katrín Ásgeirsdóttir (fædd 28. maí 1957) sjúkraliði. Maki Þórdísar er Hjalti Sigvaldason Mogensen (fæddur 28. maí 1984) lögmaður. Foreldrar: Sigvaldi Þorsteinsson og Kristín I. Mogensen. Börn: Marvin Gylfi (2012), Kristín Fjóla (2016).