Valdís Þóra jafnaði sinn besta árangur

Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni jafnaði besta árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á sterkustu mótaröð Evrópu með því að enda í þriðja sæti á Ladies Classic Bonville mótinu sem fram fór í Ástralíu. Valdís Þóra lék hringina fjóra á -7 samtals eða 281 höggi (69-70-72-70).

Celine Boutier frá Frakklandi sigraði á þessu móti á -10 og Katie Burnett frá Bandaríkjunum varð önnur á -8.

Valdís Þóra átti sjálf besta árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á sterkustu mótaröð Evrópu en Valdís varð í þriðja sæti á LET Evrópumótaröðinni í Kína á síðasta ári.

Fyrir árangurinn á þessu mót fær Valdís Þóra rúmlega eina milljón kr. í verðlaunafé. Valdís er í 6. sæti peningalistans á LET Evrópumótaröðinni að þremur mótum loknum.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR endaði í 14. sæti á þessu móti en hún vann sig jafnt og þétt upp skortöfluna eftir erfiða byrjun. Ólafía lék hringina fjóra á 288 höggum eða á pari vallar (80-70-67-71). Ólafía Þórunn fékk um 320.000 kr. fyrir árangur sinn á þessu móti.

Þetta er í fyrsta sinn sem tveir keppendur frá Íslandi eru á meðal 15 efstu á móti á sterkustu mótaröð Evrópu.

Mótið er eins og áður segir hluti af LET Evrópumótaröðinni sem er næsta sterkasta atvinnumótaröð í heimi.