Það er alltaf eitthvað gott að frétta hjá matvælafyrirtækinu Skaginn 3X sem er eitt öflugasta fyrirtæki Akraness. Matvælafyrirtækið er í útrás og mun opna útibú í Bodø í Noregi í byrjun mars. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skaganum 3X.
Magni Veturliðason, sem búsettur hefur verið í Noregi í fleiri en þrjátíu ár og er reyndur í geiranum, mun reka norsku skrifstofuna. Haft er eftir honum að Skaginn 3X hafi marga viðskiptavini í Noregi og meti þá mikils.
„Jafnvel þó við munum hafa skrifstofu í Bodø þá stefnum við á að heimsækja viðskiptavini okkar. Helstu umsvif okkar verða því á þeim stöðum þar sem viðskiptavinir okkar hafa sínar verksmiðjur,“ segir Magni.
Útibúið, sem opnar dyr sínar 5. mars, muni skapa fleiri tækifæri og auðvelda fyrirtækinu að halda áfram að veita framúrskarandi þjónustu þar í landi. Öll innsetning búnaðar og framleiðsla muni þá áfram fara fram á Íslandi.
„Við ætlum að byrja á að hafa einn starfsmann. Frekari ráðningar munu fylgja þegar við höfum komið á fót stöðugum grunni í Noregi,“ segir Magni.