Fyrsti bikarmeistaratitill FIMA í A-deild staðreynd

Keppendur frá ÍA úr Fimleikafélagi Akraness náðu frábærum árangri á bikarmóti barna og unglinga í hópfimleikum sem fram fór á Selfossi um s.l. helgi. Þar var nýr kafli skrifaður í sögu FIMA þar sem lið 1 fagnaði bikarmeistaratitli í 5. flokki í A-deild. Þetta er í fyrsta sinn sem FIMA eignast bikarmeistara í A-deild. Alls voru þrjú lið í 5. flokki frá FIMA en alls voru um 100 iðkendur frá FIMA á þessu móti.

Í 4. flokki kepptu einnig þrjú lið. Þar náði lið 1 frá FIMA öðru sætinu og tryggðu sér keppnisrétt í A-deild á Íslandsmótinu í vor.
Í 3. flokki kepptu tvö lið frá FIMA. Við óskum krökkunum, þjálfurum og öllum sem að þessu komu til hamingju með árangurinn.