Margir teknir yfir hámarkshraða við Akraneshöllina

Nýverið tók lögreglan á Vesturlandi í notkun nýja bifreið sem hefur yfir að ráða stafrænni hraðamyndavél til eftirlits með ökuhraða. Bifreiðin verður við hraðamælingar vítt og breitt um umdæmið en sérstök áhersla verður á hraðamælingar á götum við grunn- og leikskóla. Þeir ökumenn sem aka yfir leyfilegum hámarkshraða mega búast við sektum.

Lögreglan mældi hraða ökutækja við Innesveg við Akraneshöll 28. febrúar s.l. þar sem hámarkshraðinn er 30 km/klst. Á rétt rúmlega einni klukkustund vaktaði myndavélin 101 ökutæki. Meðalhraði þeirra var 36 km/klst. Mynduð voru 35 brot eða 35% ökutækja. Meðalhraði hinna brotlegu var 45 km/klst og hraðast var ekið á 62 km/klst hraða. Alls voru 76% ökutækja yfir hámarkshraða.

Á þessu svæði, beggja vegna götunnar, er Grundaskóli, knattspyrnuhöll, íþróttahús og sundlaug með tilheyrandi umferð gangandi vegfarenda – aðallega barna.

Lögreglan á Vesturlandi bendir á að á  síðasta ári varð ekkert banaslys í umferðinni á Vesturlandi. Embættið óskar eftir því að ökumenn fari varlega, aki á löglegum hraða og forðist þannig afskipti lögreglu.