Samræmda prófinu í íslensku aflýst í Grundaskóla

Prófinu var aflýst í Grundaskóla á Akranesi vegna tæknilegra vandamála hjá Menntamálastofnun

Nemendur í 4. og 9. bekk grunnskóla landsins taka samræmd próf þessa dagana víðsvegar um landið. Í dag var samræmt próf í íslensku lagt fyrir í 9. bekk. Prófinu var aflýst í Grundaskóla á Akranesi vegna tæknilegra vandamála hjá Menntamálastofnun.

„Enn einu sinni mistekst fyrirlögn samræmdra prófa. Mjög illa hefur gengið fyrir nemendur í 9. bekk Grundaskóla að tengjast prófinu frá Menntamálstofnun. Ástæðan er bilun í tölvukerfi stofnunarinnar. Fjöldi skóla hefur ekki náð tengingu og aðrir detta inn og út eða hluti nemenda hefur komist inn í prófakerfið.

Eins og gefur að skilja þá er þetta algjörlega óboðlegt gagnvart nemendum. Skólastjórn Grundaskóla hefur því aflýst prófatöku í dag þar sem prófið er með öllu ómarktækt. Frekari upplýsingar verða sendar um framhaldið síðar,“ segir í yfirlýsingu frá Grundaskóla.

Eins og gefur að skilja þá er þetta algjörlega óboðlegt gagnvart nemendum. Skólastjórn Grundaskóla hefur því aflýst prófatöku í dag þar sem prófið er með öllu ómarktækt.