Kaka frá Sjóbaðsfélaginu vakti lukku á aðalfundi Sigurfara

Sigurfari -siglingafélag Akraness hélt aðalfund sinn þann 6. mars s.l. Guðmundur Benediktsson var endurkjörinn sem formaður. Geir Geirsson og Björn Ó. Andrésson voru kjörnir í stjórn félagsins en aðrir í stjórn eru Anna G. Ahlbrecht og Eiríkur Kristófersson.

Frá ÍA sat fundinn Pálmi Haraldsson.

Í tilkynningu frá Sigurfara kemur það fram að Guðmundur Sigurbjörnsson hafi vakið mesta ánægju fundargesta með glæsilegri tertu sem hann færði félaginu að gjöf.

„Sérstaka ánægju vakti Guðmundur Sigurbjörnsson frá Sjóbaðsfélagi Akraness. Hann kom færandi hendi með feiknamikla og góða köku sem þakklætisvott frá sjósundmönnum fyrir samstarf við framkvæmd viðburða félagsins.

Við þökkum sjósundmönnum kærlega fyrir. Samstarf þessara félaga er mjög gott dæmi um hvernig félög innan ÍA geta unnið saman að viðburðum og styrkt starfsemi hvers annars. Sjóbaðsfélagið ætti skilið köku fyrir að vilja hafa okkur með, og við stefnum á að vinna okkur inn fyrir stærri köku á næsta ári.“