Karlalið ÍA sýndi frábær tilþrif í gær í lokaleik liðsins í Lengjubikarnum gegn Víkingum úr Reykjavík í Akraneshöllinni. Leikurinn endaði 3-0 en staðan var 1-0 í hálfleik.
Ragnar Leósson skoraði fyrsta mark ÍA á 7. mínútu með frábæru skoti af löngu færi. Á síðustu 15 mínútum leiksins bættu Skagamenn tveimur mörkum við, Stefán Teitur Þórðarson á 76. mín, eftir frábæran undirbúning Einars Loga Einarssonar.
Hilmar Halldórsson skoraði á 85. mínútu skömmu eftir að hafa komið inná sem varamaður. Þórður Þ. Þorsteinsson fékk stungusendingu inn fyrir vörnina og lagði upp markið fyrir Hilmar.
Þetta var lokaleikur ÍA í þessari keppni en Valur er þremur stigum á undan ÍA í riðlinum.
Hér fyrir neðan er samantekt frá leiknum í gær frá ÍA TV.