Á undanförnum dögum hafa kraftmikil tæki verið notuð við að hreinsa fíngert ryk í Hvalfjarðargöngunum. Á vef Spalar kemur fram að nýr götusópari frá Hreinsitækni ehf. var notaður í fyrsta sinn við hreingerningar í göngunum.
Alls voru 18 tonn af ryki fjarlægð á einni viku í Hvalfjarðargöngunum og verkinu er ekki lokið. Fram kemur í frétt Spalar að hluti af þessu ryki hafi safnast fyrir á aðeins einni viku.
Nýr bíll frá Hreinsitækni var nú notaður í fyrsta sinn við hreingerningar í göngunum. Sá sýndi hvað í honum býr með því að losa verklega um rykið með 20 tonnum af vatni undir miklum þrýstingi og soga strax upp í sig gumsið. Vélsópur Spalar, sem er mun umsvifaminni en þessi nýi frá Hreinsitækni, er notaður í hverri viku til að safna ryki í göngunum. Með honum voru fjarlægð 5 tonn í síðustu viku og var sópað ryki á sömu stöðum í tonnatali.