Í gær var skrifað undir viljayfirlýsingu um byggingu 33 íbúða við Asparskóga á Akranesi.
Með viljayfirlýsingunni veitir Akraneskaupstaður vilyrði um úthlutun á lóðum að Asparskógum 12, 14 og 16 til íbúðafélagsins Bjargs þar sem reisa á leiguíbúðir og einnig mun Akraneskaupstaður veita stofnframlag til uppbyggingarinnar í samræmi við ákvæði laga um almennar íbúðir nr. 52/2016.
Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri, Björn Traustason framkvæmdastjóri Bjarg íbúðafélags, Gylfi Arnbjörnsson stjórnarformaður Bjargs og forseti ASÍ og Árni Stefán Jónsson, varaformaður stjórnar Bjargs og formaður SFR, skrifuðu undir þessa viljayfirlýsingu. Viðstaddir undirritunina voru embættismenn, bæjarfulltrúar Akraneskaupstaðar og Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA.
Stofnframlag Akraneskaupstaðar til uppbyggingar er 12% af stofnvirði og getur t.d. verið í formi gatnagerðargjalda og annarra opinberra gjalda sem kaupstaðurinn hefur forræði á. Akraneskaupstaður gerir það að skilyrði fyrir veitingu stofnframlags til verkefnisins að Akraneskaupstaður hafi að jafnaði ráðstöfunarrétt að 25% íbúða samkvæmt nánara samkomulagi milli aðila. Íbúðirnar sem hér um ræðir verða allar í útleigu og tekur leiguverð þeirra mið að tekjum leigutaka.
Nánar á vef Akraneskaupstaðar.