Skagakonan Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri Kötlu DMI ehf., var í dag kjörin formaður Samtaka ferðþjónustunnar á aðalfundin samtakanna í dag.
Kosningin var afar spennandi og fékk Bjarnheiður 44,72% atkvæða. Þórir Garðarsson, sem var varaformaður samtakanna, fékk 0,1% færri atkvæði eða 44,62%.
Margeir Vilhjálmsson fékk 10,65% en Róbert Guðfinsson dró framboð sitt til baka.
Bjarnheiður er fyrsta konan sem er kjörin í þetta embætti hjá Samtökum ferðaþjónustunnar. Grímur Sæmundsen hefur gegnt þessu embætti undanfarin ár en hann gaf ekki kost á sér á ný.
Bjarnheiður Hallsdóttir er framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Kötlu DMI. Bjarnheiður var stundakennari við Háskóla Íslands og eins við Ferðamálaskóla Kópavogs auk þess að halda hina ýmsu fyrirlestra varðandi ferðaþjónustu. Hún er einnig í forystu þess fólks á Skaganum sem hefur hrundið af stað undirskriftasöfnun og öðrum aðgerðum sem mynda eiga þrýsting á stjórnvöld að fara í úrbætur á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi.
Í stjórn samtakanna voru kjörin þau Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, rekstrarstjóri sölu- og markaðssviðs Kynnisferða, Ívar Ingimarsson, stofnandi og framkvæmdastjóri ferðaþjónustunnar Óseyri, Jakob Einar Jakobsson, framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar og Ólöf R. Einarsdóttir, eigandi Mountaineers of Iceland.
Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri Radisson Blu Hótels Sögu, og Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Samskiptasviðs Icelandair Group, sitja nú þegar í stjórn SAF, en þau voru kjörin til tveggja ára á aðalfundi samtakanna árið 2017.