Hvað eru margar tegundir af brunahönum á Akranesi?

Garðar H. Guðjónsson blaðamaður og Guðni Hannesson ljósmyndari opna áhugaverða sýningu föstudaginn 23. mars í gömlu lögreglustöðinni við Kirkjubraut 10 á Akranesi.

„300 Brunahanar – stúdía í máli og myndum,” er nafnið á sýningunni sem samanstendur af myndum af öllum brunahönum Akraneskaupstaðar.

Garðar og Guðni, sem eru báðir fæddir árið 1963, hjóluðu um Akranes sumarið 2017 og mynduð alla brunahana bæjarins.

Þessi könnunarleiðangur skilaði af sér áhugaverðum staðreyndum á borð við að sjö tegundir af brunahönum eru í bænum og verða fulltrúar þeirra allra til staðar á sýningunni.

Hverri mynd fylgja margvíslegar upplýsingar um viðkomandi brunahana, svo sem um uppruna, sögu, staðsetningu, vatnsþrýsting, rennsli, fjölda viðkomandi tegundar í bæjarlandinu og fleira. Í sýningarskrá er gerð grein fyrir heildarfjölda brunahana á Akranesi og hve margir hanar eru af hverri tegund í póstnúmerinu 300.

Höfundar verða á staðnum og geta upplýst gesti um efni sýningarinnar. Guðni er ljósmyndari og starfsmaður Landmælinga Íslands en Garðar er blaðamaður og ráðgjafi í kynningar- og útgáfumálum.

Opnun fer fram föstudaginn 23. mars kl. 17-19 og verður sýningin opin 24. og 25. mars kl. 13-17.
Allir eru velkomnir.